Hvalreki fyrir bílaáhugafólk

http://www.fib.is/myndir/Gamliskrjodur.jpg

Samtök um sögu bílsins sem nefnast Universal Motoring History hafa nú opnað ókeypis aðgang að miklu kvikmynda- og ljósmyndasafni sínu af bílum og um bíla. Þar er hægt að skoða alls konar kvikmyndir af bílum allt frá árinu 1890 til þessa dags. Kvikmyndirnar eru af öllu hugsanlegu tagi, auglýsingamyndir, fræðslumyndir og fréttamyndir og slóðin er www.auto-history.tv.

Í safninu eru kvikmyndir sem teknar voru á árdögum fjöldaframleiðslu í bílaiðnaðinum, kvikmyndir af fyrstu árekstrar- og öryggisprófum sem gerð voru, og myndir um og af einstökum tegundum og gerðum bíla eins og t.d. af hinum eina og sanna jeppa, herjeppanum úr síðari heimsstyrjöld. Þá eru fjölmargar myndir af ýmsum frægum viðburðum eins og glímu manna við að setja hraðamet á ýmsum tímum í bílasögunni og kappakstri eins og t.d. Monte Carlo kappakstrinum. 

Þetta myndasafn hefur orðið til á löngum tíma og myndirnar hafa komið úr mörgum áttum, bæði framleiðendum bíla, ríkjaskjalasöfnum, herjum og frá fjölmiðlum og einkaaðilum. Margar kvikmyndanna hafa verið taldar glataðar eða ónýtar eftir að hafa verið í glatkistum hingað og þangað í meir en hálfa öld.