Hvar endar þetta?
Volkswagen bílasölur í Bandaríkjunum eru teknar að súpa illilega seyðið af pústsvindli Volkswagen. Sala nýrra bíla frá VW hrundi um 25 prósent í nóvember og menn spyrja sig nú –hvar endar þetta?
Þegar málið komst í hámæli var eins og fátt breyttist í fyrstunni og breyting á sölunni var vart merkjanleg í októbermánuði. Martin Winterkorn vék úr forstjórastólnum, stjórn VW baðst afsökunar og nýr forstjóri tók við og svo virtist sem takast myndi að fleyta VW gegn um vandræðin með því að sýna einlægni og eftirsjá og veita eigendum og kaupendum VW bíla jafnframt ýmis fríðindi og sértilboð og koma þannig í veg fyrir að stóráfall hlytist af. En svo hélt pústsvindlmálið áfram að vinda upp á sig og reyndist mun stærra og viðameira en það hafði virst í fyrstu. Senn verða liðnir þrír mánuðir frá því að svindlið komst í hámæli og það verður stöðugt ljósara að allar ákvarðanir um það voru teknar af æðstu stjórnendum VW og voru meðvitaðar. Þegar það varð ljóst var sem tiltrú almennings hryndi, fyrst í Bandaríkjunum, síðan í Bretlandi og nú er hún tekin talsvert að molna í heimalandinu Þýskalandi.
Bandarísku VW söluumboðin voru bjartsýn í október um að takast myndi að afstýra meiriháttar kreppuvanda. Forstjóri VW í Bandaríkjunum; Michael Horn mætti á ársfund þeirra til að blása þeim bjartsýni og baráttuanda í brjóst og var vel fagnað. En svo kom söluhrunið í nóvember og það slökkti bjartsýnisvonirnar að mestu og VW bílasalinn Alan Brown í Dallas í Texas og stjórnarmaður í samtökum sjálfstæðra VW bílasala segir að framtíðin sé ekki björt. „Það fyrirfinnast enn engar viðgerðaráætlanir og engar tímasetningar sem stóreykur áhyggjur okkar,“ segir hann við Automotive News.
Tímaritið telur að tiltrú bandarísku söluaðilanna fari nú minnkandi ekki síst vegna misvísandi skilaboða frá yfirstjórninni í Þýskalandi og handahófskenndra og seinlegra viðbragða VW í því að takast á við dísilvandann. Það muni ef fram heldur sem horfir, hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir Volkswagen sem tegund og koma m.a. fram í því að aðrir bílasalar hafni því að taka notaða VW bíla upp í nýja bíla af öðrum tegundum. Allt muni þetta leiða til lækkandi endursöluverðs og sölutregðu, sérstaklega á dísilbílunumm. Hneykslið hafi þegar leitt til minnst 15 prósenta verðlækkunar á uppboðum á þeim í Bandaríkjunum og fátt sjáanlegt sem hægt geti á óheilaþróuninni eða snúið henni við.