Hvatt er til aðgæslu vegna blæðinga í slitlagi
Einmuna veðurblíða hefur verið síðustu daga og veðurspáin góð áfram. Því stefnir í stóra ferðahelgi.
Tími framkvæmda á vegakerfinu stendur sem hæst og víða er nýlögð klæðing. Vegna mikilla hita síðustu daga hefur orðið vart við blæðingar í slitlagi en af því getur skapast hætta.
Til að bregðast við hafa verið settar upp viðvaranir víða um land. Starfsfólk Vegagerðarinnar í öllum landshlutum fylgist vel með aðstæðum og grípur til aðgerða ef þess gerist þörf.
Borist hafa tilkynningar um blæðingar í slitlagi frá stöðum þar sem mikið hefur verið um sólskin og hita, til dæmis Borgarfirði og Norðurlandi.
Vegfarendur eru hvattir til að hafa varann á og virða merkingar og hraðatakmarkanir.