Hve lengi endast geymar raf- og tvinnbílanna?
Sænskur eigandi Toyota Prius tvinnbíls af fyrstu kynslóð stendur nú frammi fyrir því að ákveða hvað hann eigi að gera með bílinn sinn. Og vandamálið er ekkert einfalt og í sjálfu sér svolítil vísbending um hvers má vænta þegar tvinnbílar, tengiltvinnbílar og rafbílar taka að eldast og geymarnir að ganga úr sér.
Í tvinnbílum, tengiltvinnbílum og hreinun rafbílum eru öflugir rafgeymar og dýrir. Í Toyota Prius bílunum hefur fram til þessa verið notast við svokallaða nikkel/kadmíum geyma sem hafa reynst afar endingargóðir. Í nýjustu tengiltvinnbílum og rafbílum eru yfirleitt líþíumgeymar. Þeir eru mjög dýrir og segja má að verð hreinna rafbíla sé þannig samsett að sjálfur bíllinn kosti, svo dæmi sé tekið, 3 milljónir króna, en líþíumgeymarnir í hann fjórar milljónir til viðbótar. Þar sem líþíumgeymar í rafbílum eru frekar nýir af nálinni þá er ekki enn vitað svo óyggjandi sé, hversu lengi þeir munu endast. En ef maður gefur sér að ending þeirra sé 10 ár, þá er ljóst að eftir áratugs notkun bílsins og 200 þúsund kílómetra akstur er svona bíll einfaldlega óseljanlegur. Það er ekki mjög líklegt að kaupandi finnist sem tilbúinn er til að kaupa nýja rafgeyma fyrir fjórar millur í gamlan slitinn bíl né að gamli eigandinn sé tilbúinn að kosta slíku upp á hann.
Bæði hér á landi og í Svíþjóð er ekki annað vitað en að nikkel/kadmíum geymarnir í Prius bílunum hafi enst ágætlega. Í það minnsta hafa engin vandamál með þá orðið heyrinkunn. Þessi gerð geyma er, þótt dýr sé, ódýrari en líþíumgeymar og auk þess minni en geymar þurfa að vera í hreinum rafbílum. En dýrir eru þeir samt. Það fékk fyrrnefndur sænskur Priuseigandi sannarlega að reyna.
Nú er fyrsta kynslóð Prius bílanna orðin um áratugs gömul og komin langt út fyrir öll mörk framleiðsluábyrgðar og geymarnir að nálgast endimörk líklegs líftíma. Sænski Priuseigandinn á einmitt slíkan bíl sem búið er að aka tæplega 200 þúsund kílómetra. Hann taldi sig nýlega finna fyrir því að vinnslan væri ekki sú sama og áður. Á Toyotaverkstæði í heimaborg eigandans sýndi bílanagreiningatölva að geymaeining númer átta í rafhlöðusamstæðunni væri eitthvað lasburða. Verkstæðið var til í að taka hana úr bílnum til að athuga þessa einingu númer átta nánar. Það átti að kosta 107.160 ísl. kr.
Eigandanum þótti þetta mjög dýrt og spurði því hvað kostaði þá að skipta út allri geymasamstæðunni. Og fyrst eining númer átta væri biluð, væri þá ekki líklegt að allar hinar væru líka komnar á síðasta snúning? Jú, það þótti ekki ólíklegt. -Og hvað kostaði það? 434.300 ísl kr. var svarið. Það er hærra en gangverð þetta gamalla og mikið ekinna Priusbíla er í Svíþjóð en samkvæmt verðskrám fengist um 414.000 ísl. krónur fyrir bílinn – ef geymarnir eru í lagi. Ef ekki, fæst umtalsvert minna fyrir bílinn. Það kom í ljós að uppítökuverð hins sænska Toyotaumboðs upp í nýjan bíl var 207 þúsund ísl. kr. Það er því nokkurnveginn sama hvernig eigandinn velti málinu fyrir sér. Hann var fastur í í bóndabeygju með gamla bílinn. Ef hann tæki fyrsta kostinn og fengi Toyotaverkstæðið til að taka geymasamstæðuna úr og skoða hana var það líklega eins og að kasta rúmlega hundraðþúsundkalli út um gluggann, því til viðbótar yrði hann líklegast að endurnýja samstæðuna fyrir 434.300 ísl. kr. Ekki fannst honum heldur gæfulegt að eyða rúmlega verðmæti bílsins í nýja geyma í þennan gamla bíl.
Næst velti eigandinn því fyrir sér að reyna að finna aðra og betri geymasamstæðu á partasölum. Engin fannst enda höfðu einungis tæplega þúsund svona bílar selst í landinu öllu á sínum tíma. Þá kom einnig í ljós að þeir fáu bílar sem höfðu skemmst í slysum og verið afskráðir höfðu komið rafhlöðulausir til partasalanna. Ástæðan er sú að lögregla og sjúkraflutningafólk hafði ýmist kallað til sérfræðinga frá Toyota á slysstað til að aftengja og fjarlægja 274 volta rafhlöðurnar úr bílunum áður en þeir voru fluttir af slysstað, eða flutt þá á Toyotaverkstæði til þess.
Á endanum stóð Priuseigandinn sænski frammi fyrir tveimur kostum: Annar var sá að taka sénsinn á 107 þúsund króna kostinum í þeirri von að aðrar einingar rafhlöðusamstæðunnar en þessi númer átta, væru í lagi. Hinn kosturinn var sá að taka uppítökutilboðinu upp á 207 þúsund krónur upp í nýjan og dýrari bíl og vera þar með laus við bílinn.