Hver á upplýsingarnar um bílinn?
Þann 6. desember 2013 var samþykkt í París ályktun á fulltrúaþingi FIA; Fédération Internationale de l’Automobile, um eignarhald á tækniupplýsingum og tölvugögnum í bílum. Samkvæmt ályktuninni skulu þessi gögn vera óskoruð eign kaupenda bílanna. Eftir að neytandinn hefur fest kaup á bíl þá eigi hann eftir það þessi gögn en ekki framleiðandi bílsins.
Um þetta hefur hingað til verið meiningarmunur. Framleiðendur bifreiðanna hafa talið sig eiga upplýsingarnar og verið ófúsir að láta þær af hendi til annarra en eigin samstarfs- og þjónustuaðila. Upplýsingar úr tölvukerfum bíla eru m.a. forsenda þess að hægt sé að gera við þá og halda þeim við og að bíleigandi geti sjálfur ákveðið hver gerir það.
Nýbirt verðkönnnun FÍB á bíllyklum og lásafjarstýringum endurspeglar þessa togstreitu vel. Til að búa til nýjan lykil þarf lyklasmiður að fá aðgang að upplýsingum og kóðum og flestir bílaframleiðendur og umbjóðendur þeirra eru tregir að láta þær af hendi. Þannig taka þeir sér sjálfdæmi um það að verðleggja þessa þjónustu - í sumum tilfellum út yfir allan þjófabálk.
Lyklamálið er ekki það eina af þessu tagi. Stöðugt fleiri og fleiri þættir bílsins eru tölvustýrðir og þar með verður viðhald og viðgerðaþjónusta meira og meira háð aðgangi að tækniupplýsingum bæði úr tölvu bílsins sjálfs og úr gagnagrunnum framleiðenda. Þar með kemur upp sú spurning hvort bílaframleiðendum og umboðsaðilum þeirra sé lengur stætt á því að selja neytendum bílinn en halda áfram að eiga tölvukerfin upplýsingagögnin og ráðstafa þeim og verðleggja að geðþótta? FIA telur að svo sé ekki.
Ályktun FIA fjallar þannig um það að neytandinn eigi að njóta forgangs í þessu. Löggjafarvaldi hvers lands beri að tryggja það að sá sem kaupir sér bíl, eignist jafnframt öll gögn viðkomandi bílnum og fái forræði yfir þeim. Hann geti nálgast þessi gögn og ráðstafað þeim til þess verkstæðis eða þjónustuaðila sem hann sjálfur velur til þess að þjónusta og viðhalda bílnum.
Bíleigandi skal eiga skýlausan rétt á því að geta kallað fram og skilið merkingu þeirra gagna sem geymd eru í tölvukerfi bíls hans.
Bíleigandi skal eiga rétt á því að velja þann hugbúnað og þann hugbúnaðarframleiðanda sem hann sjálfur kýs til að kalla fram upplýsingar úr tölvukerfi sjálfs bílsins og öðrum gagnabönkum sem geyma upplýsingar um bíl hans.
„Við erum þegar byrjuð að sjá hvernig hægt er að nálgast og dreifa upplýsingum um bíla, feril þeirra og notkun og að það er þegar orðið ljóst að þessi gögn má nýta í ýmsum öðrum tilgangi en þeim að hjálpa ökumanninum. Þessvegna er það mikilvægt að trygg neytendavernd sé til staðar frá upphafi og að það sé skýrt hvað þessara gagna sé skýlaus eign bíleigandans og hvað af þeim sé sameign með honum og öðrum aðilum, og þá með hverjum og hversvegna. Og að sjálfsögðu eiga neytendur að geta valið þann búnað og þá þjónustuaðila sem nýtt geta upplýsingarnar,“ segir Thierry Willemarck (sem myndiner af), formaður svæðisstjórnar FIA í Evrópu.
Thierry Willemarck segir ennfremur að það sé sjálfsagður réttur bíleigenda að geta nýtt upplýsingar um feril bílsins í þeim tilgangi að bæta akstur sinn og umferðarhegðun. En til þess þurfi bæði skýrir laga- og reglugerðarammar að vera til staðar, sem og góð kunnátta og þekking ökumanna.
Ályktunin er skýr og skorinorð krafa bæði FIA og einstakra félaga sambandsins um bættan rétt neytenda bæði á heimaslóðum og á alþjóðlegum vettvangi. Henni mun verða fylgt eftir af hálfu FIA á vettvangi löggjafarvalds í hverju landi fyrir sig og á vettvangi alþjóðlegrar bílaframleiðslu og með upplýsingagjöf til almennings. Jacob Bangsgaard framkvæmdastjóri FIA í Evrópu segir að kapphlaup sé þegar hafið um aðgang og búnað til að nálgast bílaupplýsingum og nýta þær. Því sé það nauðsynlegt að bregðast strax við og tryggja rétt neytenda. Neytandinn sé miðdepillinn í þessu öllu saman og réttur hans og öryggi sé forgangsmál. Það verði að vera hafið yfir allan vafa að neytandinn eigi upplýsingarnar sem safnast upp í bílnum og ráði því sjálfur hvaða löggiltan aðila hann velur til að þjónusta sinn bíl út frá upplýsingunum, bæði úr bílnum sjálfum og gagnabönkum honum tengdum.