Hver verða áhrif Costco á eldsneytisverð?
Gera má ráð fyrir því að talsverðar breytingar verði á sölu eldsneytis á höfuðborgarsvæðinu á komandi vordögum þegar smásölurisinn Costco hefur starfsemi, væntanlega í aprílmánuði nk. Á svæði verslunarklasa Costco að Kauptúni 2 í Garðabæ verður stærsta eldsneytisafgreiðslustöð landsins en til að öðlast rétt til að kaupa eldsneyti sem og annan varning í Costco, verður að gerast meðlimur og greiða félagsgjald. Costco er þannig kaupfélag svo að segja má að samvinnuhugsjónin sé að nema land á ný á Íslandi.
Samkvæmt öruggum heimildum FÍB er eldsneytisstöð Costco langt komin og þegar mun vera búið að fylla á jarðgeyma stöðvarinnar og sjónarvottar segja að tankbílar frá Skeljungi hafi annast áfyllinguna. Skylt mun vera að fylla birgðatanka eldsneytisstöðva áður en niðurgröfnum þróm geymanna er lokað svo að taka megi verkið út og loka megi fyrir hugsanlegan leka úr geymunum og lögnum frá þeim og laga alla hugsanlega ágalla áður en geymarnir eru byrgðir og notkun hefst.
16 dælustútar
Í tillögu að breytingum á deiliskipulagi Kauptúns í Garðabæ frá des. 2016 segir að eldsneytisstöðin verði þannig sett upp að allt að fjórar dælueyjar verði þar. Á hverri þeirra verða tvær afgreiðslueiningar eins og það er kallað og á hverri einingu verði tvær dæluslöngur, þannig að fylla má eldsneyti á allt að 16 farartæki í einu. Yfir þessu verði skyggni allt að 10xr8 m að flatarmáli og eitt eða tvö lítil þjónustuhús, allt að 40,2 fermetrar sem eru afdrep fyrir umsjónarmann stöðvarinnar.
Sjálfar afgreiðsludælurnar sækja svo eldsneytið í fjóra 80 þúsund lítra eldsneytisgeyma (sem Skeljungur hefur nú fyllt á að sögn sjónarvotta). Auk þeirra verður þarna, líklega neðanjarðar eins og stóru geymarnir, 22 þúsund lítra tankur fyrir bætiefni í eldsneytið (væntanlega).
Tilkoma Costco mun án efa hafa mikil og margvísleg áhrif á verslun á höfuðborgarsvæðinu og áreiðanlega á verðlag á margskonar vöru, ekki bara eldsneytis heldur líka hjólbarða, raftækja, mat- og nýlenduvöru og neytendur munu njóta þess. Það sýnir reynslan af verslunum Costco og margra annarra stórverslana af svipuðu tagi, t.d. Tesco í Bretlandi.
Þegar Tesco opnaði stórverslun sína í Manchester svo dæmi sé tekið, var sett upp eldsneytisafgreiðsla á lóð verslunarinnar. Þar gafst viðskiptavinum Tesco kostur á að kaupa eldsneyti á hagstæðara verði en áður hafði þekkst á svæðinu. Tesco verðlagði einfaldlega eldsneytið út frá því að eldsneytisstöðin ætti fyrst og fremst að vera aðdráttarafl á almenning. Eldsneytið var því selt á eins lágu verði og mögulegt væri án þess beinlínis að tap væri á viðskiptunum. Þetta hefur gerst aftur og aftur erlendis og engin ástæða að ætla að það verði eitthvað öðruvísi hér.
Borgin gegn neytendum?
Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB sagði í viðtali við Fréttablaðið í sl. viku að það eigi eftir að verða erfitt fyrir íslensk olíufélög að etja kappi við verslunarkeðju sem veltir meira en íslenska ríkið. Reynslan erlendis sýni að þegar stórverslanir hafi opnað eldsneytisafgreiðsur af því tagi sem Costco mun opna í vor þá hafi eldsneytisverð snarlækkað. Hér á Íslandi sé gjarnan vísað til þess hve góða þjónustu olíufélögin veiti, m.a. fyrir tilstilli mikils fjölda afgreiðslustöðva á höfuðborgarsvæðinu.
Áður hefur verið bent á að þessi mikli fjöldi sé mikið til óþarfur og sé í raun til þess fallinn að bæði hækka eldsneytisverðið til neytenda en um leið að hefta aðgang nýrra aðila að eldsneytismarkaðinum. Það sýndi sig reyndar mjög skýrt þegar rekstrarfélag verslana Krónunnar sótti um leyfi til að koma upp eldsneytisafgreiðslu á verslanalóðum sínum í Örfirisey og Kópavogi þar sem selja átti eldsneyti á verulega lægra verði en á bensínstöðvum og mæta þannig væntanlegri samkeppni við Costco. „Reykjavíkurborg synjaði þeim um lóð úti á Granda, m.a. á mengunarforsendum en ég spyr hvort það sé hlutverk skipulagsyfirvalda að segja að það komist ekki fleiri á þennan markað og vinna þannig gegn neytendum,“ sagði Runólfur við Fréttablaðið í sl. viku. Lyktir málsins urðu svo þær að Reykjavíkurborg hafnaði umsókninni með þeim rökum að bensínstöðvar í borginni væru þegar allt of margar.