Hver vill læra aksturstækni?

http://www.fib.is/myndir/Lotus_exige.jpg
Lotus Exige.

Silverstone kappaksturs- og æfingabrautin í Northamptonshire í Englandi býður nú fyrir jólin jólagjöf bíladellufólksins – eins dags æfinga- og aksturstíma á brautinni.  Til að vekja rækilega athygli á þessu hefur Silverstone gengið til samstarfs við tímaritið og Netmiðilinn AutoExpress sem birtir létta getraun. Útdreginn sigurvegari getraunarinnar fær einmitt samskonar æfingatíma á brautinni eins og nú er á sérstöku jólatilboði.

Að öllu jöfnu kostar tími af þessu tagi 155 pund eða um 21 þúsund ísl. kr. En yfir háveturinn þegar lítið er um að vera á brautinni er verðið einungis 99 pund eða um 13.400 kall og það er einmitt verðið á þessum „jólapakka.“ Þegar á brautina er komið getur fólk valið milli eins sætis kappakstursbíl, Ford Fiesta rallbíls eða þá Lotus Exige sportbíls. Kennari leiðbeinir fólki um helstu atriði kappaksturs og helstu eðlisfræðileg atriði sem ná þarf valdi á til að geta talist þokkalegur ökumaður. Síðan fær fólk að reyna á hæfni sína.

Silverstone-jólapakkinn nefnist Silverstone Driving Experiences. Hægt er að nálgast nánari upplýsingar og bóka tíma á heimasíðu Silverstone brautarinnar. Jólatilboðið þarf að bóka og greiða fyrir 22. desember nk. og  nýta fyrir 31. mars nk.