Hverju viljiði aka?

http://www.fib.is/myndir/Dansk_herbilar.jpg
Bílar danska hersins eru af ýmsu tagi. Þessir bílar eru hluti 35 Lada,  Peugeot og Toyotabíla sem danski herinn hefur gefið Serbneska hernum nýlega.


Danski herinn er um þessar mundir að endurnýja fólks- og sendibíla sína. Útboð hefur farið fram á Evrópska efnahagssvæðinu og hið endanlega val stendur fyrir dyrum. En að þessu sinni kemur hin endanlega ákvörðun um tegundir og gerðir ekki alfarið ofanfrá, því að 35 manns í hernum, mismunandi hátt sett fólk, aðallega bílstjórar yfirmanna og lagerstarfsmenn sem koma til með að nota bílana daglega, hefur fengið að prófa þá bíla sem til greina koma og segja sitt álit.

Þetta er í fyrsta sinn sem þeir sem nota eiga bílana í sínum daglegu störfum í hernum eru spurðir um þá bíla sem til stendur að kaupa. Fólkið er spurt um atriði eins og þægindi og almennt um kosti og galla bílanna áður en endanleg ákvörðun er tekin..

- Þetta hefur ekki verið reynt áður en okkur finnst það skipta nokkru máli að það fólk sem á eftir að hafa þessa bíla sem sinn vinnustað hafi eitthvað um það að segja hvernig bílarnir uppfylla þarfirnar og þær kröfur sem ökumennirnir gera til þeirra,- segir Timm W. Larsen, innkaupastjóri hersins við Motormagasinet.

Hann segir að umsagnir prófunaraðilanna 35 um hvern bíl og athugunanir innkaupadeildarinnar á innkaupsverði, bilanatíðni, rekstrarhagkvæmni og endursöluverði þegar þjónustu lýkur, verði sá grunnur sem hin endanlega ákvörðun um tegundir verður byggð á.

Alls verða að þessu sinni keyptir 55 bílar. Bæði eru það litlir smábílar, meðalstórir skutbílar, sendibílar, pallbílar, átta manna smárútur og viðhafnardrossíur.