Hvernig er hægt að lækka iðgjöld bílatrygginganna?
FÍB blaðið fjallaði í fyrra um samanburð á iðgjöldum trygginga ökutækja á Norðurlöndunum. Þar kom fram að hér á landi eru iðgjöldin 50-100% hærri en á hinum Norðurlöndunum.
Engin verðsamkeppni svo heitið geti ríkir á milli innlendu tryggingafélaganna. Er þá einhver leið til að þvinga tryggingafélögin til að láta af okrinu?
Skásta ráðið virðist að óska reglulega eftir tilboðum frá öllum tryggingafélögunum og taka alltaf því lægsta. Ekki sjaldnar en einu sinni á ári. Það hefur sýnt sig að tryggingafélögin eiga það til að lækka sig til að fá nýja viðskiptavini. Þeir sem halda tryggð við sitt tryggingafélag fá hins vegar að borga upp
í topp.
Ekkert tryggingafélag er „betra“ en annað. Öll eru þau með úrvals starfsfólk og veita skjóta og góða þjónustu í tjónatilfellum. Þess vegna er engin áhætta tekin með því að skipta sem oftast um tryggingafélag. Engin opinber stofnun stendur með bíleigendum gegn iðgjaldaokri tryggingafélaganna. Neytendastofa og Samkeppniseftirlit gera ekkert, þar sem allt aðhald með félögunum heyrir undir fjármálaeftirlit Seðlabankans.
Margsinnis hefur komið fram að það eina sem fjármálaeftirlitið hugsar um er að tryggingafélögin hagnist sem mest. Fjármálaeftirlitið hefur meira að segja varað tryggingafélögin við að fara í verðsamkeppni.