Hvernig koma bílaþjónustuaðilar fram við kven-viðskiptavini sína?
Kona sem er félagsmaður í FÍB hefur sagt fréttavef FÍB af samskiptum sínum við starfsmenn fyrirtækja í bílgreininni. Hún segir að framkoma starfsmanna sé mjög mismunandi, allt frá hátterni sem auðvelt sé að túlka sem djúpa kvenfyrirlitningu og ruddahátt upp í kurteisi og þjónustuvilja á fullkomnum jafnréttisgrundvelli.
Sem dæmi um hið fyrrnefnda nefnir hún samskipti við tiltekið bifreiðaumboð sem hún á bíl frá. Upp komu bilanir í bílnum og þegar hún leitaði til verkstæðis umboðsins og talaði við verkstæðisformanninn, hafi hann talað niður til hennar eins og hún væri alger örviti í öllu sem viðkemur bílum. Hann hafi snúið út úr orðum hennar og lagt sig allan fram um að láta hana finna hve lítið hún vissi um bílinn sinn og bíla almennt og komið fram með tilgátur um þetta eða hitt sem hún hefði áreiðanlega gert rangt og sem valdið hefði bilunum í bílnum.
Svo vill til að félagsmaðurinn, konan, hefur bein í nefninu og auk þess ágæta almenna þekkingu á bílum. Hún lét ekki bjóða sér þessa framkomu og tók bíl sinn og leitaði til annars verkstæðis sem gefur sig út fyrir að þjónusta þessa ákveðnu bifreiðategund. Þar voru menn litlu skárri en hjá umboðinu og tónninn gagnvart viðskiptavininum litlu vingjarnlegri en hjá umboðinu. Verkstæðisformaðurinn lét þau orð falla meira að segja að þessi bíltegund væri –bölvaðar druslur sem enginn ætti að láta sjá sig á- en inn á verkstæðið fór bíllinn og þær bilanir lagaðar sem fram höfðu komið. Lagfæringin sem tók nokkurn tíma og kostaði talsverða upphæð var þó ekki skárri en það að fljótlega sótti í sama horf.
Í ljósi reynslu sinnar af umboðinu og þessu meinta sérverkstæði leist konunni ekki meir en svo á að leita til dónanna enn á ný þannig að hún fór í símaskrána og fann þar verkstæði sem einmitt kveðst vera sérhæft í þessari tilteknu bifreiðategund. Þegar þangað kom var allt annað uppi á teningnum. Eigandi verkstæðisins tók henni af kurteisi og ljúfmennsku og kallaði í starfsmann sinn sem er sérfræðingur í bíltegundinni tilteknu. Sá ók bílnum inn á verkstæðið og skoðaði hann og tengdi við tölvu. Sérfræðingurinn skýrði jafnharðan fyrir eigandanum hvað hann gerði og hversvegna og lýsti líklegum ástæðum bilunarinnar sem var í rúðuvindum og hurðalæsingum. Hann lagfærði síðan bilunina í samræmi við greiningu sína og viti menn – bíllinn hefur verið til friðs síðan. Reikningurinn reyndist auk þess aðeins brot af því sem fyrra verkstæðið setti upp fyrir viðgerð sem dugði í viku.
Þessum félagsmanni okkar lék hugur á að vita hvort framkoma karla sem starfa í bílgreininni gagnvart kven-viðskiptavinum sínum, eins og í tveimur fyrrnefndu tilfellunum, væri algeng eða ekki og hvort framkoma af þessu tagi hefði jafnvel þau áhrif að konur óttast þessi fyrirtæki og reyna að komast hjá því í lengstu lög að leita þjónustu hjá þeim. Við hjá FÍB viljum því spyrja ykkur konur um ykkar reynslu. Hver er hún? Sjá spurninguna hér til hægri.