Hvers vegna lækkar ekki eldsneytið?
Olíufélögin voru skjót að taka við sér þegar heimsmarkaðsverð á bensíni og dísilolíu hækkaði í upphafi árs. Bensínið hækkaði um 1.50 krónur á lítra og dísilolían um 50 aura. Þann 3. janúar sl. þegar umrædd hækkun varð hér á landi var heimsmarkaðsverðið á bensíni í 874 Bandaríkjadölum tonnið.
Í dag, 17. janúar, nákvæmlega tveimur vikum síðar, er bensíntonnið á heimsmarkaði komið niður í 774 Bandaríkjadali. Íslenska krónan hefur vissulega verið að veikjast á sama tíma en uppreiknað í kostnað á hvern lítra miðað við gengið þann 3. janúar og aftur í gær, þá hefur kostnaðarverð á hvern lítra lækkað um ríflega 3 krónur.
Dísilolían hefur á þessum hálfa mánuði að teknu tilliti til gengis krónunnar lækkað um 2,50 krónur á lítra á heimsmarkaði. Eðlilegt er því nú að spyrja hvað það er sem tefur íslensku olíufélögin?
Við síðustu verðhækkun héldu talsmenn þeirra því fram að eðlilega væri útsöluverðið hér í samræmi við kostnaðarverð á heimsmarkaði. Telja stjórnendur olíufélaganna þá að það eigi bara við þegar heimsmarkaðsverð hækkar en alls ekki þegar það lækkar?