Hvetja til samstöðu fjármálaráðherra gegn mótmælum
Fjármálaráðherrar í Evrópu komu saman um liðna helgi og fóru yfir þróun efnahagsmála í álfunni á fundi Ecofin sem er sambandsráð fjármálaráðherra og efnahagsráðgjafa í Evrópusambandinu. Fram kom að ráðherrarnir telja margir að meginlandið verði að taka höndum saman vegna vaxandi mótmælaöldu á síhækkandi eldsneytisverði, en flutningabílstjórar og bændur halda því fram að olíuverð sem nú nálgast 70 dollara fatið muni ríða starfsemi þeirra að fullu.
Flestir ráðherranna lýstu því yfir um helgina að þeir myndu ekki beygja sig fyrir mótmælum flutningabílstjóra, en mótmælin felast í kröfu um lækkun neytendaskatta eða virðisaukaskatts á eldsneyti. Samstaða ráðherranna um málið náðist þó ekki. Heyrst hefur að Pólland muni lækka eldsneytisskatta í þessari viku. Þær fregnir hafa ekki mælst vel fyrir hjá samherjum þeirra í Evrópusambandinu.
Viðvaranir um að olíuverð sé orðið of hátt, mun verða aðalmál á dagskrá fundar olíumálaráðherra OPEC ríkjanna, sem fram fer í Vínarborg í þessum mánuði. Áhrif fellibylsins Katrínar á efnahagsmál alls heimsins hafa tröllriðið allri umræðu síðustu vikur.
Alþjóða orkumálastofnunin sagði í síðustu viku, að eldsneytisverðið sem nú er í sögulegu hámarki, muni draga úr orkunotkun um allan heim. Þá er höfð til hliðsjónar spá sem gerð var um olíueyðslu ársins 2005, en spáð var að hún yrði tæplega helmingi meiri en árið 2004.
Flutningabílstjórar og bændur hafa skorið upp herör í Belgíu, Bretlandi og Frakklandi. Fjármálaráðherrar óttast endurtekningu mótmælanna frá árinu 2000, sem breiddust út frá einu landi til annars eftir að franska stjórnin lækkaði skatta á eldsneyti.
Frakkland mun í þessari viku lýsa yfir óbeinum aðgerðum sem munu létta byrðar bænda vegna hins háa eldsneytisverðs. Aðgerðunum er ætlað að draga úr skattheimtu á framleiðsluvörum bændanna. Dominique de Villepin, fjármálaráðherra, mun kynna málið nánar á þriðjudag.
Sameiginleg niðurstaða Ecofin fundarins um helgina var að skora á olíuríkin að auka afköstin við framleiðsluna og hreinsun olíunnar. Gordon Brown, fjármálaráðherra Bretlands og gestgjafi Ecofin ráðstefnunnar, reyndi að varpa ábyrgðinni á lækkun eldsneytisverðs af herðum ríkisstjórna á herðar olíuiðnaðarins. Strax á sunnudeginum sendu BP og Royal Dutch Shell frá sér yfirlýsingu um að ólíklegt væri að þeir lækkuðu eldsneytisverð í Bretlandi þar sem skattlagning samsvarar um 75% af verði frá dælu.
Bæði olíufélögin halda því fram að aðgerðir þeirra varðandi smásölu myndu ekki skila árangri. Þau álíta að hin mikla hækkun bensíns að undanförnu sé orsök hins svimandi háa hráolíuverðs og verðs á unnu eldsneyti. Ástandið hafi svo enn versnað með tilkomu fellibylsins Katrínar.
Franska ríkisstjórnin hefur einnig beint sjónum sínum að olíuiðnaðinum. Thierry Breton, fjármálaráðherra, mun hitta forráðamenn olíufélaga á föstudaginn til að heyra undirtektir þeirra við tillögu hans um að félögin lækki verð frá dælu og að þau auki fjárfestingar sínar í endurnýtanlegum orkugjöfum, að öðrum kosti standi þau frammi fyrir óvæntri skattlagningu á hinn mikla hagnað sinn.
Þessar fréttir vekja upp spurningar um það hvað íslensk stjórnvöld séu að aðhafast til að sporna gegn síhækkandi eldsneytisverði hér á landi. Eru viðræður í gangi við olíufélögin um að þau dragi úr álagningu? Á að draga úr ofursköttum á bifreiðaeldsneyti? Verðbólgan eykst og er komin yfir hættumörk, þar er eldsneytisverðið stór áhrifavaldur. Örþjóð norður í höfum stjórnar ekki heimsmarkaðverði á olíu eða náttúruhamförum við Mexikóflóa en stjórnvöld geta ekki bara horft á þróunina án þess að gera tilraun til að draga úr neikvæðum áhrifum á efnahag heimilanna og efnahagsstöðuleika samfélagsins í heild sinni.