Hvorir eru hættulegri í umferðinni?

Hvorir eru hættulegri í umferðinni, drukknir ungir menn eða gamlingjar sem keyra á miðjum vegi og heyra hvorki né sjá nokkurn skapaðan hlut í kringum sig? Bandarískt tryggingafélag hefur látið rýna í slysatölur og niðurstaðan er sú að báðir hópar, þeir yngstu og elstu, eru háskalegir en þó hvor á sinn hátt.

 Það er tryggingafélagið The Auto Insurance sem hefur freistað þess að greina umferðarslysatölurnar og koma niðurstöðum á myndrænt form sem sjá má hér að neðan. Eins og við má búast eru yngstu ökumennirnir mikill áhættuhópur. Þeir yngstu hafa mesta tilhneigingu til að aka mjög hratt, aka undir áhrifum, taka áhættu í umferðinni og vera að fást við ýmislegt sem dreifir athygli þeirra frá akstri, svo sem að rövla í farsíma og lesa og senda SMS skilaboð út og suður. Elstu ökumennirnir bregðast heldur ekki algengum hugmyndum um umferðarhegðun síns hóps. Margir þeirra hafa tapað hæfileikanum til að greina breytingar í umferðinni og að greina hraða og fjarlægð annarra ökutækja. Algengustu slys sem elstu ökumennirnir lenda í eru á vega- og gatnamótum, ekki síst við vinstri beygjur.

 Gagnstætt flestum Evrópulöndum er miklu minna um að ökumenn noti öryggisbeltin. Séð með augum Evrópumanna er það illskiljanlegt hversu mörgum ungum Bandaríkjamönnum detti í hug að taka þá áhættu að aka án öryggisbeltis um sig. Hvorki meira né minna en 58 prósent ungra ökumanna sem deyja í umferðarslysum í USA eru ekki í öryggisbeltunum og 25 prósent undir áhrifum áfengis. Öðru máli gegnir um eldri ökumennina því að 70 prósent þeirra sem lentu í dauðaslysum voru með beltið spennt.

 Hér á landi eins og í öðrum Evrópuríkjum er þjóðin að eldast. Í Svíþjóð eru tæplega 500 þúsund manns eða um 5 prósent þjóðarinnar nú 80 ára eða eldri. Búist er við að þessi hópur verði orðinn átta prósent árið 2040. Claes Tingvall læknir, alþjóðlegur sérfræðingur í umferðaröryggismálum og stjórnandi sænsku umferðaröryggisstofnunarinnar segir að taka verði tillit til þessa í hönnun og skipulagningu umferðar og umferðamannvirkja, t.d. með því að fjölga hringtorgum í stað hefðbundinna gatna- og vegamóta. Hann varar þó við að draga miklar ályktanir af þessari rannsókn en segir að bæði sé gömlum ökumönnum hættara við að láta lífið ef slys verða, heldur en ungu fólki. Þeir eldri lendi einnig oftar í þeirri tegund slysa sem séu einna mannskæðust, semsé þeim sem verða á hefðbundnum vegamótum. Því sé það bæði þeirra eldri vegna og raunar allra vegfarenda vegna, að bæta samgönguæðarnar og útrýma verstu svartblettunum sem eru krossgatnamótin og setja upp hringtorg í þeirra stað.

Claes Tingvall segir síðan um ungu ökumennina að þeir greinilega eigi stærri hlut í því að aka undir áfengisáhrifum og aki hraða en aðrir. Engu að síður beri að varast að afgreiða alla unga ökumenn undir einn hatt og alla gamla ökumann sem einn einslitan hóp. Slíkar skilgreiningar séu einfaldlega út í hött. Allir hópar séu samsettir af mismunandi einstaklingum sem komast í mismunandi aðstæður og stundum atvikast hlutir þannig að alvarleg slys verða. Hvert slíkt atvik verði því að skoðast sérstaklega.

http://www.fib.is/myndir/Granniesvsteens-1.jpg