Hyundai hefur lækkað verð á öllum bílum
Hyundai lækkaði í gær, mánudag, verð á öllum gerðum Hyundaibíla í tilefni af boðaðri lækkun á virðisaukaskatti úr 25,5% í 24% sem tekur gildi um áramótin. Að sögn Heiðars Sveinssonar, framkvæmdastjóra Hyundai í Garðabæ lækkaði verðið á bilinu frá 20 þúsundum króna til 100 þúsunda króna eftir gerðum, en í öllum tilvikum nam lækkunin 1,2% að lágmarki.
Alls eru níu gerðir Hyundai í boði hjá umboðinu, sem heyrir undir BL ehf. Ódýrasta gerðin, i10, lækkaði um 20 þúsund krónur og kostar nú frá 1970 þúsundum króna. Þá lækkaði Hyundai i20 um 40 þúsund krónur, ix20 og i30 og i30 station um 50 þúsund krónur og i40 og i40 station um 70 þúsund krónur. Mest lækkuðu Hyundai ix35 og Hyundai Santa Fe. Beinskiptur Hyundai ix35 dísil lækkaðu um 100 þúsund krónur og kostar nú frá 5.590 þúsundum króna. Ódýrasta gerð Santa Fe lækkaði einnig um 100 þúsund og kostar nú frá 7.050 þúsundum króna. Dýrasta gerðin, sjö manna sjálfskiptur, dísil, lækkaði einnig um 100 þúsund krónur og kostar nú 8.090.000 krónur.