Hyundai hefur mikla trú á vetnisbílum
Suður-Kóreski bílaframleiðandinn Hyundai ætlar ekki að láta deigan síga í framleiðslu á vetnisbílum á næstu árum ef marka má markmið fyrirtækisins.
Vetnisbílar hafa átt undir högg að sækja á síðustu árum en markmið Hyundai er að snúa þeirri þróun við. Í tilkynningu á dögunum kom fram að Hyundai hyggst framleiða 700 þúsund vetnisbíla á næstu tíu árum.
,,Við höfum mikla trú á vetnisbílum sem eru á margan hátt hagstæðari en venjulegur rafbíll. Um gríðarlega fjárfestingu er að ræða en við erum bjartsýn og á henni einni saman er hægt að komast langt. Vetnisbílar hafa marga góða kosti og þeir menga minna en hreinir rafbílar,“ segir Saehoon Kim, yfirmaður eldsneytisfrumumiðstöðvar Hyundai Motor.
Kim hefur unnið að eldsneytisfrumutækni hjá Hyundai síðan 2003 og stýrði teyminu sem framleiddi fyrsta framleiðslubifreið heims sem gengur fyrir vetni, byggð á vinsælum Tucson jeppa fyrirtækisins. Árið 2018 stýrði hann kynningu á annarri kynslóð, kóreska bílaframleiðandans, sérhannaða eldsneytisfrumubifreiðinni, NEXO.
Rekstur Hyundai gengur ágætlega en auðvitað hefur korónufaraldurinn sett strik í reikningin eins og hjá öllum bílaframleiðendum í heiminum. Fyrirtækið hefur reynt eftir mætti að verja störfin en hjá Hyundai vinna yfir eitt hundað þúsund manns.