Hyundai og Audi í samstarf í þróun vetnistækninnar
Hyundai Motor Group í Suður-Kóreu og AUDI AG í Þýskalandi undirrituðu nýlega langtímasamning um sameiginlega vinnu við frekari þróun vetnistækninnar sem orkugjafa í næstu kynslóðum nýrra bíla beggja framleiðenda ásamt Kia, dótturfyrirtækis Hyundai, og Volkswagen, móðurfyrirtækis Audi.
Samstarfið tekur í senn til þróunar og framleiðslu á sameiginlegum íhlutum og tæknilausnum og er eitt helsta markmið samningsins að flýta þróun og framleiðslu á mengunarlausum bílum í þágu aukinnar sjálfbærni og umhverfisins.
Fyrsta skrefið í samstarfinu er að báðir samningsaðilar veita gagnkvæman aðgang að núverandi tæknilausnum fyrirtækjanna, þar á meðal þeim sem búa að baki þróun og framleiðslu Hyundai ix35 og Nexo, en enginn bílaframleiðandi hefur jafn langa reynslu af tækninni og Hyundai sem hóf almenna sölu rafknúins vetnisbíls í ársbyrjun 2013.
Um 500 rafknúnir vetnisbílar af gerðinni ix35 eru nú umferð í átján Evrópulöndum, þar á meðal tíu á Íslandi. Hjá Volkswagen AG ber Audi ábyrgð á þróun vetnistækni samstæðunnar og fær fyrirtækið nú þegar fullan aðgang að tæknilausnum og íhlutum Hyundai á vetnissviði.
Hyundai Motor Group og Audi hafa þegar sammælst um að leita frekari tækifæra í samstarfi sínu en núverandi samningur kveður á um. Meðal annars er ætlunin að skoða sameiginlega innleiðingu á iðnaðarstöðlum á sviði vetnistækninnar sem hvatt getur til aukinnar nýsköpunar á þessu sviði og þar með frekari þróun og framleiðslu á rafknúnum vetnisbílum sem hagkvæms valkosts á almennum bílamarkaði.
Af hálfu Hyundai Motor Group gefur samstarfssamningurinn við Audi fyrirtækinu aukin tækifæri til að styrkja samkeppnishæfni Hyundai enn frekar á tæknisviði rafknúinna vetnisbíla, ekki síst innan dótturfyrirtækisins Hyundai Mobis sem leiðir þróun og framleiðslu íhluta fyrir vetnistæknina fyrir Hyundai og Kia.