Hyundai vetnisbíll á næsta ári?
Látið er líklega með það í erlendum bílafjölmiðlum að Hyundai sé að verða tilbúinn til að fjöldaframleiða jepplinginn Tucson ix sem vetnisbíl og að fjöldaframleiðsla geti hafist strax á næsta ári. Vetnisbílar séu því ekki lengur neinn 2020-draumur. Allmargar frumgerðir þessa vetnisbíls hafa verið í tilraunaakstri í Evrópu síðustu mánuði, þar á meðal eru tveir í Danmörku.
Allmargir vetnisbílar af þessu sama tagi hafa haft viðkomu á Íslandi síðustu árin, síðast í fyrrasumar í tengslum við alþjóðlegt rall bíla sem knúnir voru vistvænni orku. Mjög stór í sniðum var tilraun sem Mercedes Benz stóð fyrir hér á landi með vetnisknúinn strætisvagn fyrir fáum árum. Í tengslum við það verkefni komu hingað vetnisknúnir fólks- og sendibílar sem ýmsum, m.a. blaðamönnum gafst færi á að aka.
Vetnisbíllinn frá Hyundai (eins og fyrrnefndir Benz-bílar) er í rauninni rafbíll því að vetnið sem geymt er um borð í bílnum er leitt gegnum efnarafal sem breytir því í raforku sem svo knýr bílinn. Þesskonar bílar sem bæði áðurnefndir bílaframleiðendur og nokkrir fleiri (t.d. GM, Toyota og Honda) hafa verið að prófa sig áfram með, hafa allir verið sérbyggðir tilraunabílar og þar af leiðandi mjög dýrir. Kostnaðarverð hvers fjöldaframleidds eintaks þeirra vetnisbíla eins og þeirra sem Hyundai er nú með í gangi er talið munu verða minnst rúmlega 14 milljónir í fyrstunni en hríðfalla eftir því sem fjöldaframleiðslan færist í aukana. Verði viðtökurnar góðar megi búast við því að verðið lækki um helming á fyrstu tveimur fjöldaframleiðsluárunum. En verði af fjöldaframleiðslu Hyundai vetnisjepplingsins verður hann fyrsti fjöldaframleiddi efnarafalsbíll bílasögunnar.
En aðgengi þeirra sem eiga og nota þessa bíla er vitanlega háð því að drægi bílanna á vetnishleðslunni sé þolanlegt til að þeir verði samkeppnishæfir við hefðbundna bíla og að áfyllingarstöðvar fyrirfinnist í alfaraleið. Forstjóri Hyundai í Danmörku segir við dagblaðið JP að drægi tilraunabílanna tveggja hafi reynst vera allt að 500 kílómetrar á fullum vetnistanki.
GM (General Motors) hefur lýst því yfir að fjöldaframleiddur vetnisbíll verði í boði frá og með 2015. GM hefur aflað sér mjög mikilvægrar reynslu með rafbílnum Chevrolet Volt sem auðvelt verður að breyta í vetnisbíl. Einungis þyrfti að skipta út rafstöðinni í bílnum og einhverju af geymunum en setja í þess stað efnarafal í bílinn.
Þá hafa bæði Honda og Toyota lengi unnið að vetnisbílum og gætu samkvæmt fréttum hafið fjöldaframleiðslu strax á næsta ári.