Hyundai/Kia í vandræðum í USA
Kóreski bílaframleiðandinn sem framleiðir Hyundai og Kia bíla hefur komið sér í alvarlegan vanda í Bandaríkjunum með því að auglýsa bíla sína mun sparneytnari en þeir í raun eru. Bandaríska samkeppninsstofnunin EPA sem fylgist grannt með upplýsingum og auglýsingum bílaframleiðenda hefur skikkað Hyundai til að greiða hálfan milljarð dollara í bætur til 900 þúsund eigenda Hyundai og Kia bíla sem keyptu bíla sína nýja á árunum 2009-2013. Sannað þykir að Hyundai og Kia hafi gefið upp of lágar eldsneytiseyðslutölur, mun lægri en mögulegar eru í venjulegri daglegri notkun.
Afleiðingar þesarar skreytni hafa orðið þær að bílarnir hafa misst tiltrú og sala á þeim hrapað.
Reyndar er þetta ekki í fyrsta skiptið sem Hyundai/ Kia lendir upp á kant við lögin því fyrir nokkrum árum uppgötvuðu bandarísk yfirvöld að framleiðandinn ýkti umtalsvert afl bílanna og sagði þá fleiri hestöfl en þeir í rauninni voru. Þá tóku Hyundai-menn þann kost að draga nokkuð úr fullyrðingunum. Talsvert hefur verið fjallað um hina meintu sparneytni bílana í bandarískum fjölmiðlum og nýlega baðst forstjóri Hyundai í Bandaríkjunum, John Krafcik, afsökunar á ýkjunum um eyðslu bílanna í forsíðuviðtali í Automotive News og fleiri fjölmiðlum vestanhafs. Automotive News er fréttablað bandaríska bílaiðnaðarins.
Svipað er uppi á teningnum í Evrópu að þar þykja margir bílaframleiðendur ýkja talsvert sparsemi bíla sinna. Evrópulög sem gilda um mál af þessu tagi eru hins vegar ekki jafn ströng og í Bandaríkjunum og heimila ekki jafn hörð viðbrögð. Eyðslutölur bíla í Bandaríkjunum og Evrópu eru fengnar með stöðluðum mælingum í rannsóknastöðvum þar sem líkt er eftir akstursaðstæðum. Verulegur munur er á hvernig að þessum mælingum er staðið í Evrópu annarsvegar og hins vegar í Bandaríkjunum. En báðar mæliaðferðirnar eiga að endurspegla eyðslu bíla í eðlilegri notkun en gera það misvel. Evrópska mæliaðferðin er nú í endurskoðun enda hefur hún þótt sýna allt of lágar tölur sem eru að miklu leyti úr takti við eyðslu bílanna í venjulegri daglegri notkun. Ef bílaframleiðendur svo bæta um betur með því að ýkja enn sparneytnina þá má segja að skörin sé heldur betur tekin að færast upp á bekkinn.
Í fæstum Evrópulöndum eru stofnanir sem mæla reglulega og markvisst eyðslu bíla og þannig staðfesta eða afsanna uppgefnar eyðslutölur bílaframleiðenda. Nýlega var þetta þó gert í Danmörku að frumkvæði neytendaþáttarins Kontant í danska ríkissjónvarpinu í samvinnu við FDM, systurfélag FÍB. Í ljós kom m.a. að þrjár vinsælar tegundir og gerðir sparneytinna bíla; Kia Picanto, Fiat Punto 0,9 og Hyundai i30, komust að meðaltali 28,6 prósent skemmri vegalengd en framleiðendur og söluumboð halda fram í auglýsingum og upplýsingum um bílana.