Í fyrsta sinn á Íslandi verður í boði að kaupa bíla í beinni sölu á netinu
Þau tímamót verða í sölu Volvo á Íslandi í júní næstkomandi að þá verður í fyrsta sinn í boði að kaupa bílana í beinni sölu á netinu. Nánar tiltekið verður Volvo XC40 seldur í hreinni rafbílaútgáfu en hann hefur verið til sölu hjá Brimborg sem tengiltvinnbíll. Mun salan fara fram í gegnum vefinn volvocars.com/is en fyrirspurnin mun berast til Brimborgar sem mun panta bílinn eða, til að stytta afhendingartíma, bjóða upp á bíl sem er á leið til landsins.
Að sögn Egils Jóhannsonar, forstjóra Brimborgar, er netsalan hluti af alþjóðlegri þróun í bílasölu sem er að hellast yfir bílamarkaðinn um allan heim. Brimborg byrjað að undirbúa sig fyrir þessa þróun fyrir tveimur árum. Sú aðlögun birtist í minna lagerhaldi en áður.
Egill segir í samtalinu við Morgunblaðið að ef pantað er frá grunni getur afhendingartíminn verið fjórir mánuðir en ef okkur tekst að sjá fyrir hlutina getur okkur tekist að stytta biðtímann niður í tvo mánuði. Okkur hefur tekist það frábærlega og þá kemur inn þessi hugmynd hjá framleiðandanum um netsölu á rafbílum.
Brimborg verður áfram með viðhald, ábyrgðarmál og muni taka notaða bíla upp í nýja. Þau tíðindi urðu jafnframt hjá Brimborg að fyrirtækið gerði þjónustusamning við rafbílaframleiðandann Polestar vegna fyrirhugaðrar sölu á Íslandi. Að sögn Egils liggur ekki fyrir hvenær hún hefst. Polestar muni opna sölusíðu og Brimborg afhenda bílana. Þá komi til greina að Brimborg muni hafa sýningarsal með Polestar-rafbílum.