Í Mille Miglia rallið á gömlum Saab

Victor Muller forstjóri Spyker og kaupandi Saab í Svíþjóð ætlar að taka þátt í rallkeppninni Mille Miglia (Þúsund mílna rallið) í maímánuði. Jan-Åke Jonsson forstjóri Saab hefur útvegað honum bíl til að keppa á. Það er Saab 93 frá 1957. 

 

http://www.fib.is/myndir/Saab931957.jpg
Saab 93 1957 á fullri ferð í Finnlandsrallinu.

Millie Miglia rallið er 80 ára gömul bílakeppni á Norður-Ítalíu. Upphafs- og endapunktur hennar er í borginni Brescia og er ekin 1.600 km leið um mis hlykkjótta og mis breiða sveita- og fjallvegi. Keppnin fór á sínum tíma þannig fram að sá stóð uppi sem sigurvegari sem ók alla keppnisleiðina á stystum tíma. Árið 1955 sigraði breski kappinn Stirling Moss og var meðalhraði hans hvorki meiri né minni en 159,6 km á klst. Tveimur árum síðar varð svo stórslys í þessari keppni. Það gerðist þannig að Spánverjinn Alfonso de Portago ók útaf með þeim afleiðingum að hann, aðstoðarökumaður hans og 13 áhorfendur létu lífið. Slysið varð til þess að keppnin lagðist af þar til árið 1977 að hún hófst á ný, en nú sem fornbílarall. Nafn keppninnar breyttist um leið og heitir hún nú Mille Miglia Storica. Keppnin í ár í ár er lokuð bílum yngri en af árgerð 1957.

 Sonur Victors Muller verður aðstoðarökumaður og bíllinn er nákvæmlega eins og sá bíll sem sænski rallkappinn Eric Carlsson ók til sigurs í Finnlandsrallinu árið 1957. Carlsson átti þá eftir að gera garðinn enn frægari fyrir Saab og sig sjálfan á nýrri árgerðum Saab 93 m.a. með endurteknnum sigrum í Monte Carlo rallinu og víðar.

Löng sigurganga Erics Carlssonar og Saab er stórmerkileg því að keppnisbílar hans voru svo sem ekkert sérlega öflugir. Vélin var þriggja strokka tvígengisvél, 748 rúmsm. Staðalgerð þessarar vélar var upphaflega einungis 33 hestöfl en í keppnisbíl Erics Carlssonar og Victors Muller var/er búið að uppfæra hana í 55 hestöfl. Viðbragðið úr 0 í hundraðið er 13 sekúndur og hámarkshraðinn er 150 km á klst.

Victor Muller sagði við sænska blaðamenn að Saab 93 væri stórkostlegur bíll og mikilvægur hluti þess stórmerka arfs sem Saab hefur skilið eftir sig í bílasögunni.