Í skoðun að banna nýskráningu bensín og dísel bíla árið 2028
Í uppfærðri aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum er í skoðun að banna nýskráningu fólksbifreiða, sendibifreiða og bifhjóla árið sem knúin er með jarðefnaeldsneyti 2028.
Ísland hefur sett sér markmið í loftslagsmálum og skuldbundið sig til að taka þátt í sameiginlegu markmiði ESB, Íslands og Noregs um 55% samdrátt í samfélagslosun árið 2030 miðað við árið 1990. Frá árinu 2005 hefur losun á hvern einstakling dregist saman um 30%. Fram kemur í áætluninni að frekari árangur í loftslagsmálum velti á því að hér á landi sé nægt framboð af grænni orku.
Ákveðins misskilnings gæta um að nýskráning bensín- og dísilbifreiða verði óheimil árið 2028
Í fyrirspurnartíma á Alþingi sl. þriðjudag sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, ákveðins misskilnings gæta um að nýskráning bensín- og dísilbifreiða verði óheimil árið 2028. Þetta sagði ráðherra í svari við fyrirspurn Bergþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins, í óundirbúnum fyrirspurnartíma.
Menn rak í rogastans
Eins og kom fram á mbl.is hóf Bergþór fyrirspurn sína á því að rifja upp kynningu ráðherrans frá því á föstudag á 150 áhersluatriðum varðandi loftslagsmál. Í kynningunni hafi verið sagt frá því að nýskráning bensín- og dísilbifreiða yrði óheimil árið 2028. „Ég hef heyrt í allnokkrum úr bílgreininni síðan þessi kynning fór í loftið og þar rak menn að því er virðist heilt yfir í rogastans.“
Spurði Bergþór Guðlaug hvernig þetta samrýmdist markmiðum Evrópusambandsins og hvort Íslendingar hefðu eitthvað tæknilegt forskot sem gerði þetta raunhæft, þannig að um væri að ræða skynsamlega nálgun, umfram þær þjóðir sem meðal annar framleiða bíla sem ekki eru knúnir bensíni eða díselolíu.
Gott að fá fyrirspurnina svo hægt sé að leiðrétta
Guðlaugur fagnaði því að spurningunni hefði verið varpað fram og sagði ákveðinn misskilning á ferðinni. Til útskýringar sagði hann tillöguna ganga út á það að skoða hvaða afleiðingar það hefði að flýta banninu frá árinu 2030 til ársins 2028. „Það er mjög gott að hæstvirtur þingmaður skyldi koma með fyrirspurnina svo hægt sé að leiðrétta það,“ sagði Guðlaugur og bætti við:
„Hins vegar erum við Íslendingar væntanlega í betri færum en flestir nema kannski Norðmenn þegar kemur að orkuskiptum í bílum. Það er mikil aukning á rafbílum í heiminum en margar þjóðir eiga samt við þann vanda að etja að vera ekki með græna endurnýjanlega orku til að búa til rafmagn. Það heyrir til undantekninga ef við búum til rafmagn sem er ekki hreint.“
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins greinir frá málinu á Facebook og spyr hann sig hvað sé eiginlega að gerast? „Flest önnur þróuð lönd voru búin að átta sig á því að þetta væri algjörlega óraunhæft fyrir 2040/50. Bílaframleiðendur hafa viðurkennt það og lagað framleiðslu sína að því. Meira að segja hinn ágæti rafbílaframleiðandi Tesla gerir sér grein fyrir þessu. En ekki ríkisstjórn Íslands.