Íbúar tilbúnir að ganga í verkið sjálfir
Á íbúafundi sem íbúasamtökin Víghóll í Mosfellsdal stóð fyrir í gærkvöldi kemur fram í ályktun fundarins að íbúar séu tilbúnir með málningarrúlluna og munu ganga í verkið sjálfir ef áætlun Vegagerðarinnar um að banna framúrakstur á Þingvallavegi gengur ekki eftir. Til fundarins var efnt til að ræða umferðaröryggismál í Mosfellsdal en um helgina varð banaslys á Þingvallavegi þegar tveir bílar rákust saman við framúrakstur.
Í ályktun stjórnar Víghóls kemur fram að fyrsta krafa er að málaðar verði heilar línur og þar af leiðandi framúrakstur bannaður í Mosfellsdal. Vegagerðin hefur samþykkt að framkvæma það eins fljótt og auðið er. Ef það bregst eru íbúar tilbúnir með málningarrúlluna og munu ganga í verkið sjálf. Kantlínur sem banna stöðvun í vegbrún verða málaðar fyrir haustið.
Í ályktunni er ennfremur krafa um að sett verði upp þéttbýlishlið beggja vegna dalsins og hefur Vegagerðin samþykkt að fara í undirbúningsvinnu við gerð þeirra. Háværar kröfur voru um að lækka hámarkshraða niður í 50 meðan ekki er búið að fara í aðrar lausnir s.b. hringtorg og þéttbýlishlið.
Kröfur eru uppi um að fá hraðamyndavélar strax upp. Bæjarstjóri tekur vel í það og styður okkur í því segir í ályktunni. En það yrði að vera samstarfsverkefni við lögreglu, vegagerð og umferðaröryggisráð.
í lok ályktunnar kemur fram að bæjarstjóri vill kanna þann möguleika að setja stöðvunarskyldu við alla afleggjara eftir að umræða kom um það. Fyrir liggur krafa Íbúastamtakanna um nýjan veg til þingvalla sem yrði lagður frá Nesjavallavegi að Kjósarskarði þar sem engin íbúabyggð er og þar af leiðandi auka umferðaröryggi til muna og er þetta mikið hagsmunamál Mosfellsbæjar, Dalbúa, ferðaþjónustunnar og allra ferðamanna.