Íbúðir án bílastæða þungar í sölu

Fjölbýlishúsið við Snorrabraut.
Fjölbýlishúsið við Snorrabraut.

Skortur á bílastæðum á þéttingarreitum í borginni á síðustu misserum hefur verið að gera vart við sig. Birtingamyndin á þessari þróun kemur fram í hópi íbúakaupenda sem veigra sér við að kaupa fasteignir á umræddum svæðum. Fasteignasalar fullyrða skort á bíla­stæðum á þétt­ing­ar­reit­um í borg­inni fæla frá hugs­an­lega kaup­end­ur. Ljóst má hins vegar vera að meiri­hluti borg­ar­búa sé ekki til­bú­inn að taka upp bíl­laus­an lífs­stíl.

Fasteignasalar merkja með greinilegum hætti minni áhuga fólks ef það fylgja engin bílastæði með íbúðum. Fjölbýlishúsið við Snorrabraut er glöggt dæmi í þessum efnum en ekkert sérmerkt bílastæði fylgir með húsinu. Hægt hefur gengið að selja íbúðir í húsinu en dýrari íbúðir hafa verið teknar úr sölu vegna söludrega. Á sama tíma hefur sala íbúða á Heklureitnum gengið betur þar sem boðið er upp á bílastæði. Þar er gert ráð fyr­ir 0,75 bíla­stæði á hverja íbúð.

Boðið upp á kaup eða leigu á bílastæðum

Það er bara að koma á daginn að íbúðir án bílastæða eru þungar í sölu, eða ganga bara hreinlega ekki út. Dæmi um fleiri þéttingarreiti án bílstæða er Skipholt 1 og þar gengur illa að selja af sömu ástæðum. Fleiri þéttingarreiti er hægt að nefna eins og Hæðarhorn á Hlíðarenda. Þar fylgja bílastæði ekki með íbúðum en boðið upp á að hægt sé að leigja þau. Það sama er uppi á teningnum á Grandatorgi í vesturbæ Reykjavíkur. Bílastæði þar fylgja ekki með íbúðum en hægt verður að kaupa eða leigja bílastæði í kjallara.

Ljóst er að ástandið í þessum efnum mun ekki taka breytingum á næstunni. Fleiri fjölbýlishús munu rísa á þéttingarreitum með engum bílastæðum eða með takmörkuðum fjölda.

Bílastæðiskortur almennt í miðborginni

Á vef Reykjavíkurborgar í aðalskipulagi borgarinnar segir að draga þurfi úr viðmiðum um fjölda bílastæða, fækka þeim sérstaklega á nýbyggingarreitum og setja kvaðir á fyrirtæki og stofnanir um að taka upp gjaldskyldu bílastæða. Þá skuli vinna markvissa áætlun um gjaldskyldu bílastæða í Reykjavík.

Hefur þessi stefna á einhvern hátt verið borin undir borgarbúa. Áður til þessara stefnubreytinga kom voru voru bílastæði næg í miðborginni. Fólk setti það ekki fyrir sig að fara á einkabílnum í bæinn. Nú er öldin önnur.

Bílastæðaskortur verður æ meiri og á stórum svæðum og nú er svo komið að einkabíllinn er ekki velkominn borgina. Bifreiðaeigendur veigra sér orðið við að fara á bíl í miðborgina til að heimasækja fjölskyldu, vini og aðra vandamenn. Bílastæði er erfitt að finna ef þau á annað borð finnast. Stæði sem kostuðu áður ekkert eru núna komin í gjaldskyldu. Þau eru á sumum svæðum verulega há. Það er orðið nánast ógjörningur að fara á einkabílnum í miðbæinn nema með ærnum tilkostnaði.

Byggingaverktakar eru farnir að finna fyrir auk­inni eft­ir­spurn á þeim stöðum þar sem bíla­stæði fylgja. Þessi þróun ætti engum að koma á óvart.

Ýmsir hafa velt því fyrir sér hvort fækkun bílastæða og lítið aðgengi að þeim geti hreinlega dregið úr verðmæti fasteigna. Nýbyggingar á ákveðnum reitum í borgina bjóða ekki upp á bílastæði eins og áður hefur komið fram. Það er óhætt að segja að í óefni sé komið með ófyrirsjánlegum afleiðingum.