Iðnaðarráðherra komin á rafbíl

„Við erum að fá hér í dag til afnota í ráðuneytinu rafmagnsbíl. Þessi nýi ráðherrabíll verður fyrst og fremst notaður innanbæjar og vonandi verða innviðirnir þannig byggðir upp að það verður hægt að fara á honum til Akureyrar eða lengra út á land fyrr en síðar,.“ sagði Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra þegar hún tók við nýjum rauðum rafbíl nú í morgun.

http://www.fib.is/myndir/Katrin1.jpg
Treystirðu þér til að
keyra bíl með hægri-
handar stýri spurðum
við Katrínu Júlíus-
dóttur iðnaðarráðherra.
-Það verður að koma
í ljós, svaraði hún.
http://www.fib.is/myndir/Katrin2.jpg
-Hvar er gírstöngin?
http://www.fib.is/myndir/Katrin3.jpg
...og er inngjöfin á
sama stað..?
http://www.fib.is/myndir/Hj.Kvaran.jpg
Hjörleifur Kvaran for-
stjóri OR tekur úr sam-
bandi áður en ráðherra
ekur af stað.

Ráðherra sagði að rafbíllinn væri táknrænn sem fyrsta skref í átt til þess ásetnings stjórnvalda að koma á orkuskiptum í samgöngum á næstu misserum og árum. Ætlunin væri að stórauka notkun á innlendu eldsneyti í samgöngum þannig að hægt verði að draga stórlega úr innflutningi á olíueldsneyti. Hún sagði að það væri þó ekki í verkahring stjórnvalda að mæla fyrir um það hvers konar orkugjafi það verður sem kemur í stað bensíns og olíu. Aðrir og stærri markaðir myndu stýra því. Þá væri auk þess allt eins líklegt að ekkert eitt eða tvennt muni leysa jarðefnaeldsneytið af hólmi heldur verði ýmissa kosta völ, allt eftir efnum og aðstæðum á hverju landi eða svæði. Hún upplýsti að sérstakur starfshópur ynni nú að þessum málum innan ráðuneytisins og að því hvernig nýta megi grænu orkuna í samgöngum. Starfshópurinn ætti um þetta samvinnu við fyrirtæki, sveitarfélög og skóla. Verkefnisstjórn orkuskiptaáætlunar yrði senn kynnt sérstaklega og sérstakt merki verkefnisins sömuleiðis. Vonir stæðu til að með þessu og undir nýja merkinu takist að sameina sem flesta hagsmunaaðila að því markmiði að gera landið sjálfbært um orku til samgangna.

Rafbíllinn handa iðnaðarráðherra var reyndar ekki eini bíllinn sem fór á götuna nú í morgun, því að annar samskonar bíll, grár að lit var við þetta sama tækifæri afhentur Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjun. Báðir bílarnir verða nú einskonar andlag rannsókna sem Orkusetur á Akureyri og Íslensk nýorka munu gera á bílunum, notkun þeirra, notagildi og hagkvæmni. Grái bíllinn fer norður á Akureyri og verður þar í umsjá Orkuseturs og í ýmissi daglegri notkun og mun Bílaleiga Akureyrar að einhverju leyti koma að því máli. Ráðherrabíllinn verður hins vegar í fullri daglegri notkun á höfuðborgarsvæðinu og hefur Orkuveita Reykjavíkur sett upp hleðslupóst fyrir ráðherrabílinn á sérmerktu bílastæði framan við ráðuneytishúsið við Lindargötu.

Bílarnir eru af gerðinni Mitsubishi MiEV og eru þeir með fyrstu fjöldaframleiddu rafbílum á Evrópumarkaði. Þeir koma í almenna sölu í Evrópu á næsta ári og  eru að flestu leyti eins í daglegum akstri og samskonar og sambærilegir bensín- og dísilknúnir bílar. Bara hljóðlátari.

Nokkra undrun vekur það að bílarnir tveir sem afhentir voru í dag eru báðir ætlaðir fyrir vinstri umferð og stýrið í þeim því hægra megin. Sverrir Viðar Hauksson hjá HEKLU hf, umboðsaðila Mitsubishi, sagði við fréttavef FÍB að ástæðan væri sú að fjöldaframleiðsla á bílnum fyrir hægri umferð væri varla hafin ennþá. Hann er hins vegar kominn í fjöldaframleiðslu fyrir heimamarkaðinn í Japan og fleiri Asíulönd með vinstri umferð. Japanirnir hefðu einfaldlega ekki átt bíla með vinstri handar stýri.

Drægi bílanna er um 160 kílómetrar á rafhleðslunni þannig að ljóst má vera að verði gráa bílnum  ekið norður þarf að aka leiðina í einum þremur áföngum til Akureyrar. Geymarnir eru líþíumgeymar af sömu grunngerð og eru í nútíma farsímum og fartölvum. Þeir taka þó fljótt hleðslu og hægt að hlaða þá í sérstökum hraðhleðslupóstum sem afkasta svipað og tenglar fyrir rafsuðuvélar gera. Sé það gert mætti stinga í samband við rafsuðutengil í Borgarnesi meðan ökumaður fær sér pulsu í sjoppunni, síðan aftur í Staðarskála og að síðustu í Varmahlíð áður en lagt er í Giljareitina og Öxnadalsheiðina.

Auðvitað er hægt að stinga bílnum í samband við venjulega rafmagnsinnstungu en þá gengur hleðslan hægar. Almennt séð er þó harla ólíklegt að bíllinn eigi eftir að bregðast iðnaðarráðherra því að daglegur meðalakstur heimilisbíla í innanbæjarnotkun er í kring um 40 km og daglegur akstur vinnubíla innanbæjar fer varla yfir 140 km nema þá í undantekningartilfellum. Ef munað er eftir að stinga bílnum í samband yfir nóttina og eins þær stundir sem hann er ekki í notkun á daginn, mun hann að öllum líkindum nýtast iðnaðarráðherra til allra hennar ferða um suðvesturhorn landsins.

Að lokum fyrir þá sem vilja gjarnan losna undan áþján hins rándýra og ofurskattaða bensíns og dísilolíu þá kostar nýr Mitsubishi MiEV upp undir 10 milljón krónur. Láta mun nærri að bíllinn sjálfur kosti tæpan helming verðsins en geymarnir eru með vel rúmlega helmings hlut í verðinu. Ekkert 30% né 45% vörugjald er greitt af innflutningi rafmagnsbíls frekar en öðrum bílum sem ganga fyrir innlendri orku, en 25,5 prósenta virðisaukaskattur leggst ofan á verð bílsins frá verksmiðju, flutningskostnaðinn til landsins og þóknun innflytjandans.