Innbrot í bíla á höfuðborgarsvæðinu
Að undanförnu hefur nokkuð borið á innbrotum í bíla á höfuðborgarsvæðinu. Bifreiðaeigendur á Seltjarnarnesi hafa ekki farið varhlutan í þeim efnum en innbrot hafa verið í bíla á því svæði og nú síðast um helgina. Í flestum tilfellum virðist um lyklalaust aðgengi að bílunum að ræða.
Bílum hafði verið læst kvöldinu áður en það virðist ekki hafa stöðvað innbrotsþjófana við iðju sína. Ekki voru unnar skemmdir svo neinu nemi en ljóst þykir að markmiðið með þessum innbrotum var að komast yfir verðmæti.
Í byrjun árs 2019 var þó nokkuð um innbrot í bíla og þá vaknaði grunur manna að í sumum tilfellum notuðu þjófarnir ákveðna tækni við innbrotin sem felst í því að merki frá lyklum bifreiða með lyklalausu aðgengi er notað til að opna þá. Virðist sem þessir tæknivæddu þjófar noti merki, þó veik séu, frá bíllyklum sem séu inni í húsum til að komast inn í bíla. Bíleigendum með lyklalaust aðgengi hefur verið bent á að brýnt sé að geyma ekki lyklana við útidyr.
Það þarf ekki að hafa mörg orð um það að bíleigendur verða í mörgum tilfellum fyrir tjóni. Ef þjófarnir komast á annað borð yfir verðmæti í bílunum eins og veski sem innihalda skilríki og kreditkort fygir því óhjákmilega mikill kostnaður að endurnýja þau eins og margir hafa reynslu af.
FÍB leitaði upplýsinga hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og spurðist fyrir um hvort lögreglan hafi orðið vör við aukningu í innbrotum af þessu tagi að undanförnu.
Guðbrandur Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í umferðardeild á höfuðborgarsvæðinu, sagði að við fyrstu sýn eru þessi innbrot í bíla með þessum hætti ekki að færast í aukana þar sem merki frá lyklum bifreiða með lyklalausu aðgengi er notað. Maður hefur heyrt að úti í heimi hafa innbrotsþjófar verið að nýta sér umrædda tækni.
,,Heilt yfir er mest um innbrot í eldri gerðir bíla eða þá þegar þeir eru skildir eftir í gangi,“ sagði Guðbrandur.