Innbrot í bíla í Bretlandi færist í vöxt
Það sem af er árinu hefur innbrotum í nýja og nýlega bíla færst í vöxt í Bretlandi. Bíleigendur hafa raunar víða orðið fyrir barðinu á þessum þjófum sem láta greipar sópa sem aldrei fyrr. Algengt er að fólk sjái þess merki að farið hefur verið inn í bíla þess á bílastæðum og stolið úr þeim töskum, myndavélum og öðrum farangri.
Í seinni tíð hefur það færst í vöxt að bílunum sé stolið í heilu lagi. Engar skemmdir eða ummerki um innbrot sjást á bílunum sem stolið var úr né á stolnu bílunum ef þeir þá finnast á annað borð.
En til að geta ræst síðan bíl með lykillausri ræsingu og stolið honum í heilu lagi þarf bílþjófurinn til viðbótar að búa yfir staðgóðri rafeindafræðiþekkingu og að hafa auk þess komist yfir sérstakan kóða sem almennt ætti ekki að vera á glámbekk. Því vara vísindamennirnir eindregið við því að bílaframleiðendur og íhlutaframleiðendur gefi þessa kóða upp. Það leiði til þess að þjófar geti gengið að milljónum bíla um veröld víða og keyrt í burt á þeim.
Breska lögreglan hefur hvatt bifreiðaeigendur til að gera auknar varúðaráðstafanir og bindur lögreglan vonir við að fljótlega verði hægt að finna leiðir til að loka fyrir þessa aðferð til innbrota í bíla.