Innbrot í tölvukerfi bíla
Bandarískur öldungadeildarþingmaður, Edward Markey, demókrati frá Massachusetts hefur spurt 20 stærstu bílaframleiðendur heimsins um hversu vel varðir og öruggir bílar þeirra eru gagnvart árásum tölvuhakkara. Tilefni fyrirspurnar hans eru skýrslur tölvufræðinga um að tölvuþrjótar hafi fundið leiðir til að brjótast inn í tölvukerfi bíla. Reuters fréttastofan greinir frá þessu.
Þingmaðurinn biður bílaframleiðendurna um að svara spurningum um hvernig þeir öryggisprófi tölvur og tölvubúnað bíla og netsambönd og hvort þeir gangi úr skugga um það ekki sé mögulegt að brjótast inn í þau. Hann vitnar m.a. í nýja skýrslu tveggja tölvuöryggisfræðinga sem hafa fundið veikleika í netkerfum bíla sem gera tölvuþrjótum það mögulegt að ná stjórn á þeim og jafnvel valda árekstrum og slysum. Ennfremur spyr þingmaðurinn um hvernig bílaframleiðendurnir sjái til þess að ekki sé hægt að sækja inn í bílana viðkvæmar persónulegar upplýsingar um notendur bílanna eða þá að læða eyðileggjandi vírusum inn í tölvukerfi bíla.
Megintilefni fyrirspurnar þingmannsins er nýleg 100 bls. skýrsla tveggja tölvuöryggisfræðinga. Í henni lýsa þeir í smáatriðum hvernig mögulegt er að brjótast inn í tölvukerfi bíla eins og t.d. Toyota Prius og Ford Escape á fullri ferð úti á vegi, stjórna hemlum, trufla stýrið og gefa bílnum inn, án þess að ökumaður fái við neitt ráðið.