Innheimtu veggjalds í Hvalfjarðargöngum verður hætt í september
Innheimtu veggjalds í Hvalfjarðargöngum verður hætt í september, að líkindum í síðari hluta mánaðarins. Þetta kom fram á aðalfundi Spalar sem á og rekur göngin.Framkvæmdastjóri, fjármálastjóri og endurskoðandi Spalar hafa farið rækilega yfir skuldbindingar félagsins annars vegar og tekjuáætlun hins vegar. Niðurstaðan er sem sagt sú að í einhvern tíma í september verði hætt að innheimta veggjald og í framhaldinu taki Vegagerðin við mannvirkinu og rekstri þess. Þess er að vænta að nánari tímasetning verði metin í maímánuði.
Gylfi Þórðarson, framkvæmdastjóri Spalar, upplýsti á aðalfundinum að heildarskuldbindingar félagsins til loka rekstrartímans næmu alls um 1.300 milljónum króna. Þar vegur þyngst annars vegar lokagreiðsla langtímaskulda Spalar við lífeyrissjóði, 418 milljónir króna að meðtöldum vöxtum og verðbótum og hins vegar útborgun inneignar á áskriftarreikningum og endurgreiðsla vegna veglykla og afsláttarkorta til viðskiptavina, alls um 422 milljónir króna.
Þar við bætast tekjuskattsgreiðslur og útgreiðsla hlutafjár og arðs til hluthafa.
Tekjuáætlun til loka rekstrartímans í haust miðast við 3% aukningu umferðar að jafnaði frá sama tímabili í fyrra. Fyrstu tvo mánuði og fram eftir marsmánuði 2018 var umferðaraukningin 2%, undir áætlun með öðrum orðum. Skýringin er ótíðin í febrúar og minni umferð af þeim ástæðum en ella hefði verið.
Útlit er hins vegar fyrir umtalsverða aukningu umferðar núna í mars í samanburði við sama mánuð í fyrra.
Í skýrslu stjórnar, sem Gísli Gíslason, formaður Spalar ehf., flutti aðalfundinum, kom fram að alls fóru á árinu 2017 2.549.994 ökutæki um Hvalfjarðargöng. Það er 8,3% aukning frá fyrra ári og 2017 er mesta umferðarárið frá því göngin voru opnuð sumarið 1998.
Meðalumferð (dagsumferð) árið 2017 var rétt tæplega 7.000 ökutæki en var 6.436 ökutæki á árinu 2016.
Gjaldskrá Hvalfjarðarganga hefur verið óbreytt frá 1. júlí 2011 og verður óbreytt þar til ríkið fær göngin afhent í haust. Í upphaflegum samningum Spalar var gert ráð fyrir því að veggjaldið fylgdi verðlagi í landinu. Umferðin varð mun meiri en áætlað var og tekjurnar þar með líka. Þessa hafa vegfarendur notið og veggjaldið verið lækkað oftar en það hefur hækkað á rekstrartímanum.
Stakt veggjald var ákveðið þúsund krónur þegar göngin voru opnuð fyrir tæplega 20 árum og er enn þúsund krónur. Ef veggjaldið hefði fylgt verðlagi væri þúsundkallinn orðinn nær 2.500 krónur.