Innkallanir á VW dísilbílum dragast enn á langinn
Reuters fréttastofan hefur eftir þýska blaðinu Bild í dag að það muni dragast um minnst sex vikur enn að hefja innkallanir um 2,5 milljón dísilbílum VW í Þýskalandi til að lagfæra svikahugbúnað bílanna – búnaðinn sem gerði pústhreinsibúnað þeirra að mestu óvirkan nema þegar þeir voru mengunarmældir. Víst má telja að drátturinn verði svipaður annarsstaðar í Evrópu.
Töfin er rakin til þess að þýsk stjórnvöld hafa ekki samþykkt áætlanir og verklag Volkswagen um lagfæringarnar og telur að þær muni leiða til þess að tilteknar dísilvélar, sem einkum er að finna í Passat bílum, muni að viðgerð lokinni ekki uppfylla kröfur Euro 5 mengunarstaðalsins. Bild hefur þetta eftir talsmanni samgöngustofu Þýskalands, KBA.
Volkswagen hóf í lok janúar sl. að innkalla bíla til þessara lagfæringa og byrjaði á Amarok pallbílum með tveggja lítra dísilvélum. Til stóð að hefja síðan innkallanir á yfir 500 þúsund Passat bílum þann 29. febrúar sl. að sögn Bild.
Reuters hefur leitað eftir svörum frá Volkswagen um þetta mál en engin fengið.