Innköllun á bílum í Bandaríkjunum

Reuters fréttastofan greinir frá því að 800 þúsund bílar frá m.a. Hyundai/Kia og Subaru hafi verið innkallaðir í sl. viku. Ástæður eru sagðar ýmsar en meðal þeirra eru sagðir gallaðir loftpúðar.

 

Hyundai innkallaði í sl. viku rúmlega 205,000 bíla af gerðunum Veracruz og Sante Fe af árgerðum 2007 og 2008. Ástæðan er galli í stýrisloftpúðum sem talinn er geta leitt til þess að loftpúðinn springur ekki út í árekstri.

Subaru tillkynnti um þrjár aðskildar innkallanir í sl. viku. Sú fyrsta nær til rúmlega 295 þúsund bíla af árgerðum 2002 til 2007. Hún er vegna þess að spyrnur í framhjólabúnaði gætu átt það til að ryðga þar sem raki er viðvarandi í lofti og salt er á götum. Þá voru innkallaðir yfir 195 þúsund Outback og Legacy bílar af árgerðum 2010-2011 vegna brunahættu í þurrkumótor. Loks voru innkallaðir tæplega 70 þúsund Outback og Legacy bílar af árgerð 2011 vegna þess að sóllúga gæti losnað og fallið af.

Kia innkallaði rúmlega 10 þúsund bíla af Sorento jeppum af árgerðum 2007-2008. Ástæðan er hugsanleg tölvuvilla sem aftengt gæti farþegaloftpúðann.  

Loks innkallaði Volkswagen ríflega 30 þúsund Jetta fólksbíla árgerð 2011-2012 vegna þess að púströrið stendur of langt út undan stuðaranum sem gæti sviðið fótleggi fólks.

Bandaríska umferðaröryggisstofnunin NHTSA (National Highway Traffic Safety Administration) rannsakar nú auk þessa kvartanir sem borist hafa vegna þess að tjakkur, sem fylgir svokölluðum Minivan bílum frá Ford eigi til að gefa sig og bíllinn þar með falli niður. Tjakkar þessir fylgja 205.661 bíl af árgerðum 2004-2005 og á heimasíðu NHTSA er greint frá einu dauðaslysi vegna þessa. Innköllun hefur ekki hafist. Þá rannsakar stofnunin einnig kvartanir vegna meintra galla í bílum frá Honda og í Jeep Liberty jeppum frá Chrysler.