Innlend eldsneytisframleiðsla
Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra undirritaði viljayfirlýsingu í morgun með japanska fyrirtækinu Mitsubishi, Heklu hf. Orkustofnun og Nýsköpunarmiðstöð Íslands um gerð hagkvæmniathugunar fyrir byggingu og rekstur eldsneytisverksmiðju á Íslandi.
Í frétt frá iðnaðarráðuneytinu segir að áhugi Japana á þessu samstarfi byggist m.a. á þeim árangri sem Íslendingar hafa náð í hagnýtingu umhverfisvænna orkugjafa, vatnsafls og jarðhita. Um sé að ræða framleiðslu á eldsneyti sem leyst getur jarðefnaeldsneyti af hólmi, svokallað Dimethyl Ether (DME = CH3OCH3 ). Það getur komið í stað díselolíu á bifreiðar og ekki síður í stað brennsluolíu á skip. Framleiðslan byggir á nýlegri tækni sem Mitsubishi hefur þróað og hefur einkaleyfi fyrir.
Stefnt er að því að nýta útblástur koltvísýrings (CO2) sem verður til við framleiðslu málma, eins og áls eða kísiljárns. Einnig kemur til greina að nýta koltvísýring sem kemur upp með jarðhitavökva í jarðhitaorkuverum. Til að framleiða DME þarf auk þess vetni, sem má afla með ýmsu móti, svo sem með rafgreiningu vatns eða með hitun á lífrænu sorpi.
Viljayfirlýsingin sem nú hefur verið undirrituð nær til samstarfs um greiningu á hagkvæmni þess að reisa verksmiðju sem framleiðir slíkt eldsneyti hér á landi. Við það er miðað að hagkvæmnigreiningunni verði lokið á 6 mánuðum. Ef niðurstaða hennar reynist jákvæð verður tekin ákvörðun um að það hvort tilraunaverksmiðja verður byggð.