Innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins boðar stórfellda vegtolla þvert á þjóðarvilja og fyrri loforð
Í fréttum Stöðvar 2 í gær var rætt við Sigurð Inga Jóhannsson innviðaráðherra sem boðar gríðarlega aukna skattheimtu af bíleigendum með vegtollum í öllum jarðgöngum til viðbótar við vegtolla af svokölluðum samvinnuleiðum sem pólitískur orðaleikur um einkavæðingu hluta sameiginlegs vegakerfis landsmanna.
Þarna er um að ræða algjöra stefnubreytingu frá yfirlýsingu formanns Framsóknarflokksins í aðdraganda Alþingiskosninga í október 2017. Þetta gengur einnig þvert á vilja meirihluta landsmanna samkvæmt ítrekuðum skoðanakönnunum og undirskriftasöfnun á liðnum árum.
Sigurður sagði í fréttinni að ,,við” værum að ,,fara í að taka upp annarskonar gjaldtöku í umferðinni. Við erum að hætta með bensín- og dísilgjöld og fara í einhverskonar notkunargjöld.” Hverjir eru þessir við? Stóð nokkuð til að bera þetta undir kjósendur í lýðræðislegu ferli eða eru þessi svokölluðu við með einræði í þessum stórfelldu skattabreytingum?
Gjaldið nokkuð hátt en samt hóflegt?
Sigurður sagði horft til Færeyja varðandi fyrirmyndir um gjaldtöku og að þar sé gjaldið haft nokkuð hátt, en samt hóflegt. Hvað þýðir þetta?
Í febrúar sl. var opinn fundur Vegagerðarinnar um fyrirhugað útboð á samvinnuverkefninu ný brú yfir Ölfusá. Fram kom fyrirspurn til forstjóra Vegagerðarinnar og bæjarstjóra Árborgar um upphæð fyrirhugaðs gjalds fyrir staka ferð yfir brúna. Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri vegagerðarinnar svaraði 400 krónur en Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri Árborgar var með hugmynd um 75% lægra gjald eða 100 krónur fyrir staka ferð til þess að hann gæti nýtt brúna í sínu daglega lífi.
Sigurður talar um nokkuð hátt gjald en samt hóflegt. Hvort mun kosta 400 krónur á verðlagi í febrúar 2022 eða 100 krónur að fara á fjölskyldubílnum yfir væntanlega Ölfusárbrú? Það væri gott að fá hreinskilin svör frá innviðaráðherra og formanni Framsóknarflokksins um þessi fyrirhuguðu útgjöld fjölskyldna og atvinnulífs á Íslandi.
Hvað mælir gegn vegtollum til að fjármagna vegabætur
FÍB ítrekar fyrri ábendingar um vegtolla, mikilvægi öruggra vega og ríflegar tekjur ríkissjóðs af bílum og umferð. FÍB er alfarið á móti því að vegamannvirki verði fjármögnuð með vegtollum.
Vegtollar eru mjög dýr leið til að hafa tekjur af umferðinni. Raunsætt er að áætla 15% fari í kostnað við innheimtu vegtolla þar sem umferð er mikil og 60-80% þar sem umferð er lítil.
Vegtollar eru mun kostnaðarsamari en aðrar innheimtuaðferðir stjórnvalda af bílum og umferð. Kostnaður við vegtolla felst m.a. í dýrum tækjabúnaði, hugbúnaði, tengingum, innheimtukostnaði, viðhaldi, endurnýjun og almennum rekstri.
Skyndileg áform um vegtolla fela í sér lýðræðishalla. Kjósendur hafa ekki fengið tækifæri til að taka afstöðu til slíkra hugmynda í kosningum.
Vegtollar þýða aukna skattbyrði, þeir bætast við þær greiðslur sem umferðin skilar nú þegar. Engin áform hafa verið kynnt um að lækka aðra skattheimtu af bílum og umferð.
Vegtollar mismuna vegfarendum eftir búsetu og ferðatilgangi og leggjast þyngst á þá sem hafa minna aflögu. Ávinningur af búsetu á ódýrari svæðum fer fyrir lítið.
Það er lýðskrum að lofa þeim sem mest aka tug prósenta afslætti af vegtollum. Ef þeir sem mest nota vegina eiga að borga sama og ekkert þá skila vegtollarnir aldrei áformuðum tekjum. Fjarstæðukennt er að verðlauna þá sem mest aka og valda mestum umhverfisáhrifum.
Vegtollar á þjóðvegum gera lítið til að létta áhyggjum stjórnvalda af minnkandi tekjum af eldsneytissköttum vegna fjölgunar rafbíla (orkuskiptin). Akstur á þessum leiðum er aðeins hluti af heildarumferð á landinu á hverjum degi.
Fáheyrt er að innheimta sérstaka vegtolla vegna öryggisúrbóta og eðlilegrar uppbyggingar á grundvallar samgönguæðum þjóðfélagsins. Umferðin skilar nú þegar nægum tekjum til að standa undir þessum útgjöldum.
Ríkisvaldið getur ekki réttlætt að almennri umferð um samgönguæðar Íslands sé breytt í arðbæra féþúfu.
Það er ekki hægt að réttlæta vegtolla með því að benda á að þetta sé gert víða erlendis. Skattar á bifreiðanotkun íslenskra heimila eru með þeim hæstu sem þekkjast um víða veröld. Nýir skattar í fomi vegtolla eru frekleg aðför að fjárhag margra fjölskyldna sérstaklega þeirra sem þurfa að sækja þjónustu um langan veg.