Ískalt í lögreglubílunum
Þegar kalt er í veðri kvíða norskir umferðarlögreglumenn því að fara í vinnuna og eiga eftir að sitja allan guðslangan daginn í skítköldum lögreglubílnum. Sumir lögreglubílarnir eru nefnilega með svo veika miðstöð að til að komast heill heilsu í gegn um daginn verður fólkið að dúða sig í ullarnærföt, vetrarfatnað, skinnhúfur, hanska og trefla.
Volkswagen Passat er algengasti lögreglubíllinn í vegaeftirliti í Noregi um þessar mundir. Það er einkum 2011 árgerðin sem lögreglufólkið kvartar undan þegar kalt er í veðri. Miðstöðin í honum sé ekki með aukahitara og nái því alls ekki að halda bílnum hlýjum hið innra þegar útihitastigið fellur niður í 15 gráðu frost og þaðan af meira. Þá heldur fólkið í bílunum ekki vinnudaginn út nema vera vel dúðað í hlýjasta fatnað sem finnst. Það er fagtímarit norskra lögreglumanna sem greinir frá þessu. Rætt er við lögreglumann um þetta mál og segir hann að í lok vinnudags í bílnum sé hann stundum svo krókloppinn, sérstaklega á fótum og fótleggjum, að þeir séu gersamlega dofnir.
Meginástæða þessa er sú að lögreglubílarnir umræddu eru dísilbílar. Dísilvélarnar í þeim eru svo nýtnar á eldsneytið að afgangsvarminn sem kemur úr bruna eldsneytisins er einfaldlega ekki nægur til að halda fólksrýminu þokkalega hlýju. Þess vegna er sett auka olíumiðstöð í nýjustu dísilbíla sem notaðir eru á köldum svæðum heimsins til að gera þá viðunandi hlýja að innan í miklum kuldum. Þessari aukamiðstöð var að sögn tímaritsins sleppt í Passat bílunum af árgerð 2011 þegar þeir voru keyptir til Noregs. Það var gert vegna þess að þeir sem önnuðust innkaupin fyrir hönd lögreglunnar töldu enga þörf fyrir hana. Því var hún „spöruð“ burt við litla kátínu hjá lögreglumönnum.
Miðstöðvar í bílum nýta hitann sem myndast þegar bílvélin er í gangi. Það gerist þannig að kælivökvanum sem heldur vinnsluhita vélarinnar réttum, er dælt frá vélinni í gegn um miðstöðvarelementið eftir að hafa tekið í sig hitann frá brunahólfum vélarinnar. Miðstöðin er því í raun miðstöðvarofn sem flytur varmann úr kælivökvanum inn í fólksrýmið. Í nýjustu dísilvélum er þessi hiti einfaldlega ekki nóg í vetrarkuldum á norðlægum slóðum.