Ísland er Evrópumeistari á bensíndælunni
Hvergi í Evrópu er hærra verð á bensíni og dísilolíu en hér á landi og eftir áramótin mun það hækka enn meira.
Í byrjun næsta árs munu bensín- og olíugjöld hækka um 2,5% og kolefnisgjald um 55%. Samanlagt hækka skattar á bensín um 10,70 krónur eða tæplega 9% og á dísilolíu um 11,50 krónur eða rúmlega 10%. Ljóst er að Ísland mun halda Evrópumeistaratitlinum með yfirburðum og hækkunin gera sitt til að viðhalda verðbólgu.
Fyrir utan þessar auknu álögur áforma stjórnvöld stórtæka innheimtu vegatolla til að fjármagna uppbyggingu nauðsynlegra samgöngubóta. Einnig er fyrirhugað að innheimta vegatolla af umferð á höfuðborgarsvæðinu til að fjármagna Samgöngusáttmálann. Allt stefnir í heimsmeistaratitilinn.
Þrátt fyrir háar álögur á umferðina rennur aðeins þriðjungur af þeim tekjum til uppbyggingar og viðhalds vegakerfisins. Afleiðingin er gríðarleg innviðaskuld, illa farnir og hættulegir vegir, ónóg afkastageta, umferðartafir og neikvæð áhrif á hagvöxt.
Í meðfylgjandi súluriti er samantekt á lítraverði á bensín og dísel í 36 Evrópulöndum. Hægt er að smella á myndina til að fá frekari upplýsingar og færa á milli rita.
Meðalverð á lítra af bensíni í 36 Evrópulöndum 18. nóvember 2024 by Björn K