Íslendingur dæmir Formúluna á Imola í San Marino 22-23. Apríl
Ólafur Kr. Guðmundsson við dómarastörf í Formúlunni á Monza brautinni í fyrra.
Ólafur Kr. Guðmundsson varaformaður FÍB og stjórnarmaður í LÍA, Landssambandi íslenskra akstursíþróttafélaga, hefur verið skipaður annar tveggja alþjóðadómara FIA í Formula 1 kappakstrinum sem fram fer á Imola kappakstursbrautinni í San Marino á Ítalíu dagana 22. og 23. apríl næskomandi.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ólafur er dómari í Formúlunni: Dómaraferill hans hófst í Formula 3 árið 1993. Síðan hefur hann verið dómari í margri alþjóðakeppni í ralli og í sportbílakappakstrinum Grand Touring. Hann var fyrst skipaður dómari í Formula 1 árið 2001 og í fyrra var hann dómari við Formula 1 keppnislotuna á Nurburgring í Þýskalandi. Keppnin á Imola 22.-23. apríl er sjötta Formula 1 keppnin sem Ólafur dæmir. Jafnframt þessu hefur FIA óskað eftir því að Ólafur verði dómari í sportbílakeppninni Grand Touring sem fram fer í Dubai í lok nóvembermánaðar nk. Þar keppa menn á sportbílum eins og Aston Martin, Ferrari, Maserati, Lamborghini, Lister, Porsche ofl.