Íslensk jarðgöng til umræðu í Brussel
Tveir fulltrúar FÍB; Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri og Stefán Ásgrímsson ritstjóri sátu í síðustu viku morgunverðarfund með Brian Simpson formanni samgöngunefndar Evrópuþingsins í Brussel. Á fundinum voru m.a. fulltrúar nokkurra bifreiðaeigendafélaga innan FiA og var rætt almennt um bætt umferðaröryggi, starfsemi og öryggismarkmið Evrópudeildar FiA og aðildarfélaga innan samtakanna, þar á meðal FÍB. Meðal þess sem rætt var á fundinum var nýleg EuroTAP jarðgangaöryggisúttekt þar sem Hvalfjarðargöngin fengu afar slaka einkunn.
Robert Sauter frá ADAC í Þýskalandi, sem myndin er af, er stjórnandi EuroTAP. Hann lýsti starfsemi EuroTAP og markmiðum með öryggisskoðun jarðganga. Tilgangurinn væri auðvitað sá að benda á hættur og á leiðir til úrbóta. Hann minnti fyrst á ógnarleg slys sem urðu í veggöngum undir Alpana og þann lærdóm sem af þeim hefur verið dreginn. Því vekti það óneitanlega nokkra athygli þegar tiltölulega nýleg veggöng reynast vera mjög aftarlega á merinni í öryggismálum. Af þeim 26 göngum sem tekin voru út af EuroTAP á þessu ári hefðu fern göng reynst hafa öryggiságalla og ein þeirra þó sýnu verst – Hvalfjarðargögnin á Íslandi. Þeim lýsti Sauter sem svartholi með engu innan í. (Black hole with nothing in it).
Fyrsta öryggisúttektin á jarðgöngum í Evrópu var gerð árið 1999. Þá voru tekin út 19 göng og reyndist öryggi í 8 þeirra áfátt eða 42%. En eftir því sem árin liðu fækkaði hlutfallslega þeim göngum sem var verulega áfátt í öryggisþáttum. Af 13 göngum sem tekin voru út árið 2009 reyndust öll vera í lagi. Og af þeim 26 sem tekin voru út á þessu ári reyndust einungis 4, eða 15% vera áfátt í öryggislegu tilliti. Af þessum 4 voru Hvalfjarðargöngin þó sýnu verst að sögn Roberts Sauter. Nánar verður hægt að lesa um könnunina í FÍB blaðinu sem dreift verður til félagsmanna FÍB í þessari viku.