Íslenski bílaflotinn eldist
Íslenski einkabílaflotinn hefur frá bankahruninu elst hratt. Talsvert var flutt út af nýjum og nýlegum bílum eftir hrunið og er nú svo komið að meðalaldur íslenska bílaflotans er orðinn tæpum tveimur árum hærri en í ríkjum Evrópusambandsins. Bílar Íslandi eru nú að meðaltali 10,2 ára en í Evrópusambandinu er meðalaldurinn 8,5 ár. Fyrir rúmlega 20 árum, árið 1989, var allt annað uppi á teningnum. Þá var meðalaldur bíla á Íslandi einungis 7,5 ár.
Danir hafa lengi skorið sig úr öðrum ríkjum innan Evrópusambandsins. Bæði eru innflutningsgjöld á bíla þar afar há en auk þess er fólk þar nýtið og á bíla sína lengi og heldur þeim vel við. Meðalaldur bíla þar hefur undangengna áratugi verið hærri en hér á landi, stundum verulega hærri. Það er liðin saga nú. Meðalaldur bíla í Danmörku er nú 9,1 ár og skera þeir sig minna úr hinum Evrópusambandsþjónunum en áður. Í Bretlandi er meðalaldur bíla nú 6,7 ár, á Ítalíu 7,5 ár, í Þýskalandi og Frakklandi 8,1 ár og í Svíþjóð 9,4. Finnar eru þeir einu sem hafa eldri bílaflota en Íslendingar samkvæmt tölum ACEA-samtaka evrópskra bílaframleiðenda, eða 10,5 ár. Samkvæmt upplýsingum frá norsku hagstofunni eru Norðmenn á svipuðu róli og Íslendingar, með 10,3 ára bílaflota. Þessar upplýsingar komu fram á blaðamannafundi Bílgreinasambandsins fyrir stundu.
Upplýsingar ACEA eru frá 2006, en nýrri tölur hafa ekki verið teknar gefnar út fyrir Evrópulöndin. Özur Lárusson, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins telur að meðalaldur bíla í Evrópu hafi ekki breyst verulega á þessum tíma þar sem sveiflur séu jafnan hægar í stóru Evrópulöndunum og t.a.m. sýna nýjustu tölur frá Svíþjóð svo til sama meðaltal nú og árið 2006.
Miklar framfarir hafa orðið í bílaþróun síðustu ár, t.d. hvað varðar eldsneytiseyðslu og útblástur koltvísýrings. Sem dæmi má nefna að meðalbíllinn af árgerð 2010, þegar tekið er mið af átta algengustu bílategundunum hér á landi og byggt á tölum frá Umferðarstofu, eyðir að meðaltali 5,6 lítrum á hundraðið. Meðalbíllinn af árgerðinni 2003 eyðir að meðaltali 7,3 lítrum. Eyðslugrennstu nýju bílarnir eyða hins vegar undir fjórum lítrum á hundraði. Þetta þýðir að nýi meðalbíllinn eyðir næstum fjórðungi minna af eldsneyti en sá sjö ára gamli með samsvarandi lækkun á eldsneytisútgjöldum bíleigenda.
Útblástursgildi meðalbíls af árgerð 2010 er 140 g af koltvísýringi á kílómetra en 177 g hjá meðalbílnum árgerð 2003. Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs, bendir á að samkvæmt reglum Evrópusambandsins skuli meðallosun nýrra bíla vera 130 g af koltvísýringi á ekinn km frá og með árinu 2012. „Útblástursgildi umhverfismildustu nýju bílanna er undir 100 grömmum af koltvísýringi á kílómetra en er yfir 200 g að meðaltali hjá tíu ára gömlum bílum hér á landi,“ segir Sigurður og nefnir dæmi frá Bretlandi: „Útblástursgildi nýskráðra bíla í Bretlandi árið 2009 var 150 g af koltvísýringi. Ef sami árangur næðist hér myndi útblástur frá samgöngum minnka um a.m.k. 25% en til þess þurfa eldri bílar að úreldast og nýir að koma í staðinn.“
Bílgreinasambandið hleypir nú af stokkunum átaki sem nefnist Bílavor 2010 og var markaði fyrrnefndur blaðamannafundur upphaf þess. Opið hús verður hjá flestum bílaumboðum landsins laugardaginn 20. mars í tilefni af átakinu.
Hápunktar Bílavors 2010 verða þrír laugardagar fram í maí, einn í hverjum mánuði, og verður ákveðið þema tekið fyrir hvern þessara daga. Fyrsti opni dagurinn verður laugardaginn 20. mars. Þá verður lögð áhersla á umhverfismál og þær miklu breytingar sem orðið hafa á eldsneytiseyðslu og útblæstri bíla síðustu tíu ár. Sá næsti verður laugardaginn 10. apríl og þá verður litið á þróunina í öryggisbúnaði bíla síðustu árin. Þriðji og síðasti opni dagurinn verður svo laugardaginn 15. maí. Þá verður megináhersla lögð á þjónustuna í bílgreininni, hvernig tækninni hefur fleygt fram og fyrirtækin lagað sig að því með menntun og tækjabúnaði. Átakið miðar að því að auka jákvæða umræðu um bílamarkaðinn. Lögð verður áhersla á fræðslu og fróðleik þar sem dregið verður fram mikilvægi bílgreinarinnar og þess að eðlileg endurnýjun eigi sér stað í bílaflota landsmanna.