Íslensku olíufélögin níðast á neytendum
Fyrir tveim vikum var algengt verð á bensínlítra í Danmörku 14,69 DKK sem gerir um 286,50 íslenskar krónur. Algengt verð á lítra á þjónustustöð í Svíþjóð var þá ríflega 21 SEK sem gerir um 262 íslenskar krónur. Á þessum tímapunkti kostaði bensínlítri á þjónustustöð hjá N1 329,90 krónur og 325,70 krónur hjá Orkunni.
Í dag 9. október kostar bensínlítrinn í Danmörku 13,99 DKK sem gerir um 273 krónur og í Svíþjóð um 19.89 SEK sem gerir um 248,50 íslenskar krónur. Verðlækkunin á litra í Danmörku er um 13,5 íslenskar krónur og sama lækkun er á lítra í Svíþjóð. Lítraverðið hjá N1 er 326,90 krónur sem er tveim krónum ódýrara en fyrir hálfum mánuði hjá Orkunni hefur lítrinn lækkað um 2,30 krónur.
Það er eitthvað rotið í gangi gagnvart neytendum á Íslandi. Fjarlægð, lítill markaður, háir skattar er hrópað hér á landi. Þetta á allt við en hefur ekkert að gera með það að verðið lækkar aðeins um ríflega tvær krónur hér á landi á sama tíma og danskir og sænskir neytendur fá lækkun um ríflega 13 krónur.
Fákeppnismarkaðurinn í íslenskum olíuviðskiptum er staðreynd. Olíufélögin selja mjög mikilvæga neysluvöru sem vegur þungt í neysluvöruvísitölunni með tilheyrandi áhrifum á verðbólgu. Er ekki kominn tími til að setja niður leikreglur á þessum markaði? Rekstraraðilum er ekki treystandi til að þjóna sínum viðskiptavinum með gegnsæjum og sanngjörnum hætti. Hvar eru stjórnvöld?