Isuzu missir fótanna í Bandaríkjunum
Isuzu Trooper.
Japanska bílafyrirtækið Isuzu hefur tilkynnt það dragi sig út af bandarískum jeppamarkaði. Frá janúar 2009 verði Isuzu jeppar ekki lengur á Bandaríkjamarkaði. Bandarískir fjölmiðlar segja þetta ekki koma á óvart. Engin nýsköpun hafi átt sér stað lengi hjá Isuzu og bílarnir í raun úreltir byggðir á gamalli tækni frá General Motors.
Isuzu hefur lengi verið í nánum tengslum við GM en þessi tengsl hafa verið að trosna undanfarin ár. Isuzu hefur því stöðugt meir orðið að treysta á uppfærslu á gamalli tækni og bílum frá GM til að halda við sölunni. Þetta hefur svo leitt til síminnkandi sölu og nú nálgast endalokin hvað jeppana varðar.
Isuzu Trooper, -Rodeo og –Axiom voru talsvert vinsælir jeppar í Bandaríkjunum á tíunda áratuginum en hafa lítið breyst síðan þá og markaðshlutdeild tapast í kjölfarið.