Ívilnanir við kaup á rafbílum
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra lýsir því yfir í viðtali við Morgunblaðið í dag að undanþágur frá aðflutningsgjöldum og virðisaukaskatti upp að vissum mörkum á rafbílum verði framlengdar um eitt ár.
Undanþágur þessar eða ívilnanir, hafa verið við lýði nokkur undanfarin ár en jafnan gilt í einungis eitt ár í senn. Núgildandi undanþágur hefðu fallið niður um komandi áramót en nú hefur ráðherrann tekið af tvímæli og lýst því yfir að þær gildi áfram fram til áramótanna 2015/2016.
Yfirlýsing ráðherra í Morgunblaðinu er fagnaðarefni því hún léttir nokkuð á þeirri óvissu sem ríkt hefur um afdrif ívilnana gagnvart rafbílum og öðrum vistvænum farartækjum. Óvissan örvar sannarlega ekki vilja neytenda til að endurnýja ökutæki sín yfir í vistvæn og flýtir tæpast heldur fyrir yfirlýstum áformum um orkuskipti í samgöngum. Æskilegast væri því að stjórnvöld tækju meir afgerandi skref og settu sér skýr markmið lengra fram tímann eins og t.d. Norðmenn hafa gert. Þar hafa stjórnvöld frá árinu 2001 unnið samkvæmt 14 ára áætlun. Þegar henni lýkur á næsta ári er gert ráð fyrir því að rafbílar í umferð í Noregi verði orðnir 50 þúsund talsins.