Jaguar I-Pace rafbíll ársins hjá Topgear BBC
Að mati breska tímaritsins BBC TopGear Magazine er fjórhjóladrifni rafbíllinn Jaguar I-Pace „ofurhljóðlátur, svakalega kraftmikill og yfirmáta stöðugur,“ eins og komist er að orði í niðurstöðu dómnefndar tímaritsins sem útnefnt hefur I-Pace rafbíl ársins (EV of the Year).
Verðlaunin bætast við önnur nítján sem I-Pace hefur hlotnast frá því í mars þegar bíllinn fór á markað á meginlandinu. Þeirra á meðal eru verðlaunin „Bíll ársins“ í Þýskalandi og hjá Sunday Times og verðlaunin „Game Changer Award“ hjá Auto Car sem segir I-Pace þann bíl á markaðnum sem breytt hafi leikreglunum á árinu.
Miðað við þær móttökur sem I-Pace hefur fengið á árinu virðist sem enginn bíll á markaðnum líkist I-Pace hvað varðar aksturseiginleika og hönnun, þar sem útgangspunkturinn snýst um að hámarka til fulls kosti drifrásar og aflgjafa bílsins.
Jaguar I-Pace er fimm manna fjórhjóladrifinn rafbíll með tvo 70 kg rafmótora sem skila saman 400 hestöflum (290 kW) og 696 Nm togi. Bíllinn er enda ekki nema tæpar fimm sekúndur úr kyrrstöðu í 100 km/klst. Rafhlaðan er 90 kWh lithium ion sem gefur allt að 470 km drægni við venjubundna daglega notkun í ECO-stillingu samkvæmt nýja mælistaðlinum WTPL.