Jaguar-Land Rover byggir bílaverksmiðju í Slóvakíu
Jaguar-Land Rover hefur hafið byggingu nýrrar bílaverksmiðju í Slóvakíu. Í henni stendur til að framleiða nýja línu Landróvera sem byggðir verða úr áli og koma munu í stað gamla Landróversins sem nú er hætt að framleiða. Automotive News greinir frá þessu og hefur eftir stjórnarformanninunm; Alexander Wortberg að byggðar verði tvær megingerðir og hvor um sig í mörgum útfærslum.
Hann segir að afkastageta verksmiðjunnar verði 150 þúsund bílar á ári en hægt verði að stækka hana upp í tvöfalt meiri afkastagetu. Hvort eða hvenær það verði gert hafi þó ekki ekki verið ákveðið enn sem komið er. Fjárfesting Jaguar-Land Rover (sem er að fullu í eigu hinnar indversku Tata fjölskyldu) í nýju verksmiðjunni nemur um milljarði punda. Sjálf byggingin og allur hennar tækjabúnaður mun kosta 800 milljón pund en 200 milljón pund fara í að byggja upp net undirframleiðenda og flutningakerfi fyrir aðföng og afurðir verksmiðjunnar. 2,800 manns munu svo starfa í verksmiðjunni þegar framleiðsla hefst.árið 2018.
Slóvakía var í eina tíð helmingur Tékkóslóvakíu en sagði sig úr lögum við Tékkland og gerðist sjálfstætt ríki fyrir nokkrum árum. Í landinu búa um 5,5 milljónir manna og bílaframleiðsla í landinu nemur um helmingi allrar iðnaðarframleiðslu landsins og bílar eru yfir 25% af útflutningi Slóvakíu. Þótt talsmenn Jaguar-Land Rover vilji ekki svara því beint hvort verið sé með þessum framkvæmdum að færa bílaframleiðsluna frá Bretlandi til annars ES-lands áður en Bretland yfirgefur Evrópusambandið endanlega, er talið víst að svo sé. Forstjóri Jaguar-Land Rover segir einungis að fólk megi treysta því að hvað sem á kann að ganga, muni fyrirtækið aldrei yfirgefa Evrópu.
Þeir bílaframleiðendur sem fyrir eru starfandi í Slóvakíu eru Volkswagen, Kia og PSA (Peugeot-Citroen) og framleiða hundruð þúsunda bíla ár hvert. Miðað við fólksfjölda er Slóvakía mesta bílaframleiðsluríki heims. Hagvöxtur á þessu ári er talinn verða a.m.k. 3,2% og vegur nýja Jaguar-Land Rover verksmiðjan talsvert í þeirri spá.