Jaguar og Land Rover byggja í Kína
Greinilegt er að „breskustu“ bíla veraldar eiga upp á pallborðið hjá Kínverjum. Á þessu ári hafa kínverskir bílakaupendur nánast slegist um Jaguar og Land Rover bíla og söluaukningin milli ára nemur 80 prósentum.
Kannski er ofsagt að Jaguar/Land Rover sé enn breskt því að fyrirtækið er í eigu Tata í Indlandi. Það er Tata sem nú reisir nýja risa-samsetningarverksmiðju í samvinnu við kínverska bílafyrirtækið Chery. Það er ekki bara verksmiðja sem byggð verður, heldur líka rannsókna- og þróunarmiðstöð til að vinna að nýjum gerðum í samvinnu við Chery Automobile. Ennfremur verður líka byggð sérstök vélaverksmiðja.
Jaguar/Land Rover bílar fyrir kínverska markaðinn hafa fram að þessu verið framleiddir í Bretlandi en þegar nýja verksmiðjan kemst í gagnið árið 2014 ætti álagið á bresku verksmiðjurnar að minnka.