Jaguar XK úr áli frumsýndur í haust
16.06.2005
Jaguar XK - með loftpúða í húddinu.
Nýi Jaguar XK sportbíllinn sem frumsýndur verður í haust á bílasýningunni í Frankfurt er um margt merkilegur vagn. Yfirbygging og undirvagn er úr algjörlega úr áli, en það sem er mesta nýjungin, er að í vélarhlífinni er loftpúði sem springur út ef manneskja verður fyrir bílnum – henni til verndar. Púðinn á að draga úr líkamstjóni þess sem fyrir bílnum verður.
Nýi Jagúarinn verður frumsýndur í framleiðsluútgáfu á bílasýningunni í Frankfurt sem haldin er annaðhvert ár rétt fyrir miðjan september. Þar verður hann sýndur sem Coupé eða hálfopinn en næsta haust kemur hann í blæjuútfærslu.
Loftpúðakerfið í vélarhlífinni á bílnum er hannað af Autoliv. Í því eru tveir loftpúðar aftarlega í vélarhlífinni við framrúðuna sem springa út framávið á móti þeim sem hugsanlega verður fyrir bílnum. Skynjarar eru framan á bílnum sem setja loftpúðana af stað. Púðarnir eru sérstaklega gerðir til að verja höfuð hins fótgangandi.
Nýi Jagúarinn verður með 4,2 l V8 vél en seinna meir verður fáanleg 3,5 l V6 vél og loks túrbína á stærri vélina til þess að fríska hana enn frekar upp.