Japanski bílaiðnaðurinn lamaður
Hamfarirnar skelfilegu í Japan hafa lamandi áhrif á þetta mikla iðnveldi, ekki síst á bílaiðnaðinn. Margar bílaverksmiðjur og íhlutaverksmiðjur eru einmitt á svæðinu norður af Tokyoborg, sem verst hefur orðið úti. Þær eru lamaðar en svipaða sögu er líka að segja um starfsemi annarsstaðar þar sem samfélagsinnviðir eru meira og minna stórskemmdir.
Verksmiðjur Toyota í Japan stöðvuðust þegar jarðskjálftahrinan hófst og verða lokaðar áfram í dag og hugsanlega á morgun einnig meðan athugað hverjar þeirra eru yfirleitt starfhæfar og sömu sögu er að segja af verksmiðjum fleiri framleiðenda.
Þótt verksmiðjur Toyota séu dreifðar um öll helstu markaðssvæði fyrirtækisins í öllum heimshornum fer þó tæpur helmingur bílaframleiðslunnar hjá Toyota enn fram í Japan. Áætlanir Toyota gera ráð fyrir að tæpar fjórar milljónir bíla af alls 8,7 milljóna á heimsvísu verði framleiddar í Japan á árinu.
En eigi þessar áætlanir að ganga eftir hlýtur að þurfa að hafa hraðar hendur með að ræsa verksmiðjurnar í Japan á ný. Það getur hins vegar orðið erfitt vegna þess hversu gríðarlegum skemmdum hamfarirnar hafa valdið á innviðum japansks samfélags. Raforkuver, ekki síst kjarnorkuver eru stórskemmd, raforkudreifikerfi eru stórskemmd og sömu sögu er að segja af samgöngu- og flutningakerfum af öllu tagi.
Svipaða sögu er að segja af öðrum stórum bílaframleiðendum eins og Honda, Nissan og Mitsubishi. M.a. sýndi japanska sjónvarpið myndskeið frá Hitatchi-höfninni um 120 km norður af Tokyo. Þar stóðu 2.300 Nissan og Infiniti bílar tilbúnir til útflutnings til Bandaríkjanna þegar fljóðbylgjan æddi yfir höfnina og eyðilagði bílana alla með tölu og eldur varð laus í hluta þeirra.