Jean Todt kjörinn forseti FIA
Jean Todt fyrrum framkvæmdastjóri keppnismála hjá Ferrari var kjörinn forseti FIA, alþjóðasamtaka bifreiðafélaga, á ársþingi samtakanna sem haldið var í París föstudaginn 23. október 2009. Jean Todt tekur við forsetaembættinu af Max Mosley sem lét af embætti af eigin ósk eftir 16 ára farsælt starf.
Tveir voru í kjöri til forseta hinn franski Jean Todt og Finninn Ari Vatanen fyrrum heimsmeistari í rally m.m. Jean Todt naut afgerandi stuðnings og hlaut glæsilega kosningu og sigraði með hátt í 75% greiddra atkvæða.
Fulltrúar Íslands á FIA þinginu voru Steinþór Jónsson formaður FÍB og Ólafur Kr. Guðmundsson varaformaður FÍB og stjórnarmaður í LÍA.