Jeep Avenger fékk aðeins þrjár stjörnur í öryggisprófunum Euro NCAP

Á dögunum birti evrópska árekstrarprófunarstofnunin, Euro NCAP, niðurstöður úr öryggisprófunum á nokkrum bílategundum, þar á meðal Audi Q6 e-tron, Ford Explorer, Jeep Avenger, Renault Symbioz, Subaru Crosstrek og XPENG G6. Flestar bifreiðarnar komust ágætlega frá pófununum.

Mesta athygli vakti að hinn margverðlaunaði Jeep Avenger fær aðeins þriggja stjörnu einkunn. Jeep Avenger var kjörinn bill ársins í Evrópu 2023 og jafnframt í fyrsta sinn sem bandarískt vörumerki Stellantis hópsins sem fær þessa virtu viðurkenningu. Audi Q-6 e-tron, Ford Explorer, XPENG G6, Subaru Crosstrek fengu allir fimm stjörnu frammistöðu. Það verður að teljast góður árangur fyrir þessar nýju gerðir bíla.

Bíllinn fékk víðast hvar góða dóma bílagagnrýnenda. Aftur á móti er ýmsum öryggisþáttum ábótavant að mati EURO NCAP sem gefur bílnum miðlungs þriggja stjörnu einkunn í öryggisprófunum. Bent er sérstaklega á veikleika í árekstrarprófunum frá hlið og ennfremur á að hljóðmerki framvirka árekstraviðvörunarkerfisins virkaði ekki.

Jeep Avenger kom ekki vel frá í nokkrum árekstrarprófunum með gangandi vegfarendum, mótorhjólamönnum og hjólreiðamönnum. Þess má geta að bílaframleiðandinn hefur bætt viðvörunarmerkið á ökutækjum sem eru í framleiðslu og býður eigendum núverandi bíla möguleika á að uppfæra bíla sína.

Dr. Michiel van Ratingen, framkvæmdastjóri Euro NCAP segir þessar niðurstöður sýna greinilega metnaðarleysi hjá framleiðanda. Öryggi er það sem bílaframleiðendur ættu aldrei að spara. Euro NCAP mun áfram vinna á sinni braut evrópskum bílakaupendum til hagsbóta.

Euro NCAP stendur fyrir „European New Car Assessment Programme.“ EuroN CAPstofnunin er sameign bifreiðaeigendafélaganna í Evrópu. Euro NCAP árekstursprófar nýja bíla og metur öryggi þeirra á hlutlægan hátt.

Allir nýir bílar sem eru á markaði í Evrópu verða að standast tilteknar lágmarks öryggiskröfur. En eftir að Euro NCAP varð til og hóf að meta öryggi bíla kerfisbundið hefur starfsemin virkað mjög hvetjandi fyrir bílaframleiðendur til að gera bílana sífellt öruggari.

Í öryggisprófunum Euro NCAP er styrkur og þol bíla prófað m.a. í árekstrum m.a.framanfrá og frá hlið. Kannað er einnig hvaða öryggisbúnaður er til staðar í bílnum og hvernig hann virkar þegar slys verður. Út frá þessu er síðan metið hversu vel bíllinn verndar þá sem í honum eru, bæði fullorðna sem börn, og gefnar eru stjörnur fyrir öryggi hans.