Jeep Commander selst illa

http://www.fib.is/myndir/Jeep_commander_01.jpg
Jeep Commander.

Samkvæmt fréttum frá Detroit verður framleiðslu hætt á Jeep Commander þrátt fyrir að innan við ár er síðan bíllinn kom á almennan markað. Afar léleg sala á bílnum og dalandi áhugi á jeppum í Bandaríkjunum er sögð ástæða þessa. Heimildir Detroit News herma að framleiðsla á bílnum verði stöðvuð á næsta ári eða í síðasta lagi árið 2009.

Jeep Commander var frumsýndur í Evrópu á bílasýningunni í Frankfurt haustið 2005. Þá þótti evrópskum bílablaðamönnum mörgum bíllinn vera hálfgert nátttröll og minnst 10 árum of seint á ferðinni. Þetta væri enn einn stórjeppinn byggður á gamalli tækni og útlitið væri fornfálegt.

En ekki þótti þetta það eina sem fundið var að þessum bíl – innréttingin í honum þótti ljót, úr lélegum efnum og illa frágengin og aftasta – þriðja sætaröðin - væri eins og henni hefði verið klastrað í bílinn á síðasta augnabliki. Þar gæti raunar enginn yfir tíu ára aldri setið. Allar hrakspár um bílinn virðast nú hafa ræst og samkvæmt innanbúðarheimildum blaðsins hjá Chrysler er bíllinn mistök, hann sé illseljanlegur nema með gríðarlegum afsláttum og spili fyrir sölu á hinum nýja Grand Cherokee.

Sala á Jeep Commander hófst 2006 og hafa einungis 88.500 eintök selst frá upphafi.