Jeremy Clarkson ávíttur fyrir fávisku um rafbíla
-Hvað þetta frægðarfólk getur látið út úr sér! segir greinarhöfundur á vefsíðunni Green Car Reports þar sem hann svarar fullyrðingum Jeremy Clarkson um rafbíla í sjónvarpsviðtali við Business Insider lið fyrir lið.
Ljóst er að hin nýja þáttaröð gamla þríeykisins úr TopGear; The Grand Tour á sjónvarpi netverslunarinnar Amazon hefur slegið í gegn. Jeremy Clarkson, aðalkallinn í þáttunum, hefur af því tilefni verið í viðtölum við fjölmiðla um sjónvarpsþætti hans og félaganna James May og Richard Hammond að fornu og nýju og barst talið að rafbílum og frægu atriði í TopGear þar sem Clarkson yfirgaf fótgangandi rafbílinn Tesla Roadster straumlausan úti á kappakstursbraut að því er virtist, og bílnum síðan ýtt inn í bílageymslu
Clarkson fór hörðum orðum um rafbíla í TopGear þættinum umrædda og Tesla höfðaði mál á hendur BBC vegna meintra ósanninda og falsana þar sem bíllinn hefði alls ekki orðið straumlaus. Upp komst nefnilega síðar að samkvæmt handriti umrædds þáttar hefði bíllinn ekki verið settur í hleðslu fyrir upptökuna vegna þess að hann átti að verða rafmagnslaus. En Tesla tapaði samt málinu á þeim grundvelli að TopGear væri ekki upplýsinga- og fréttaþáttur, heldur skemmtiefni.
Í viðtalinu við Business Insider má heyra að álit Clarksons á hleðslurafbílum hefur ekkert breyst. Hann telur enn að þeir eigi enga framtíð fyrir sér en öðru máli gegni um vetnisrafbíla. Þá þoli dreifikerfi borga eins og t.d. New York ekki það aukaálag sem rafbílar krefjast í ofanálag við þá straumnotkun sem fyrir er. Rafmagn slái út í New York bara við það að fólk kveiki ljós í húsum sínum og stingi farsímum sínum í hleðslu.
Þessu vísar Green Car Reports gersamlega á bug sem algerri dellu. Rafmagnið eigi að vísu til að dofna stundum þegar lofthiti er mestur og rakastig loftsins hæst og loftkælingarnar fara á fullt.
Hér á eftir fara nokkrar þeirra fullyrðinga sem Clarkson hafði uppi í viðtalinu við Business Insider og svör Green Car: Fullyrðingar Clarksons eru skáletraðar og svör Green Car eru feitletruð:
,,Bandaríkin geta tæplega annað núverandi eftirspurn eftir rafmagni og sama er að segja um Bretland.“
Engar tölulegar upplýsingar stafesta þetta.
,,Þegar fólk fer svo almennt að hlaða rafbíla sína, hvaðan á orkan að koma?“
Rafbílar eru ekki eins óskaplega orkufrekir og margir halda. Auk þess hlaða flestir rafbílaeigendur bílana að nóttu til þegar raforkunotkun er mun minni en að degi til. Þótt akstur rafbíla yrði skyndilega um tveir þriðju hlutar alls bifreiðaaksturs þyrfti einungis að auka raforkuframleiðslu um sex til sjö prósent umfram það sem hún er nú.
,,Það yrði að byggja fleiri raforkuver. Varla er það umhverfisvænt, eða hvað?“
Rafbílar munu ekki auka álag á raforkukerfin í þeim mæli sem Clarkson virðist trúa. En þótt byggja þurfi ný orkuver, þá verða hin nýju verulega umhverfisvænni en þau gömlu.
,,Vetnið er svarið. Því fleiri rafgeymabílar sem framleiddir eru, þeim mun minni verður eftirspurnin eftir vetnisrafbílum sem þó þyrfti að fjölga. Við þörfnust vetnisrafbíla, heimurinn þarfnast vetnisrafbíla.“
Vetnisrafbílar eða efnarafalsbílar eru mikið deiluefni í bílaheiminum og hafa sætt harðri gagnrýni frá bæði Elon Musk forstjóra Tesla og tæknistjóra Jaguar sem hefur sagt að efnarafalstæknin sé hrein og klár vitleysa vegna bæði vegna gríðarlegs orkutaps við það að framleiða vetnið og síðan að umbreyta því aftur í raforku. Auk þess fyrirfinnist vart innviðir eins og vetnisframleiðslustöðvar og vetnisafgreiðslustöðvar.