Jörðin, víst er hún flöt!
Sverrir Bollason formaður klofna tveggja manna starfshópsins sem á dögunum kannaði m.a. kosti þess og galla að lækka hámarkshraðamörk á Hringbraut og Miklubraut vestan Kringlumýrarbrautar var í viðtali um málið í síðdegisútvarpi Rásar 2 í gær. Sverrir er talsmaður þess að lækka hraðamörkin og færði ýmis sjónarmið og rök fyrir því í útvarpsþættinum, sum hver nokkuð sérkennileg.
Um forsendur og nauðsyn fyrirhugaðrar hraðalækkunar nefndi Sverrir m.a. hávaða- og loftmengun á Miklubraut og Hringbraut sem hvorttveggja myndi skána. Þá sagði hann ekki kom til greina að þvert á móti að lagfæra þessar götur og gera þær greiðfærari og fækka stoppum og töfum. Um þetta sagði hann nokkurnveginn orðrétt:
... með því að taka niður hraðann getum við minnkað áhrifin af þessu og við erum hérna ... þú veist loftmengunin, það er að það er talað um að bílvélar vinni vel á 60-70 km hraða og þá þarf ekkert að stoppa á ljósum. OK en er það að fara að gerast á Hringbrautinni vestur í bæ og hver ætlar að byggja mislæg gatnamót þar og hvaða byggingar á að rífa til að koma fyrir mislægum gatnamótum í miðjum Vesturbænum? Það er ekki að fara að gerast.
Sverrir sagði að hámarkshraðalækkunin fyrirhugaða tengdist líka skipulagsmálum. Byggðin vestan Kringlumýrarbrautina hefði verið skipulögð fyrir 1960 og þar með á allt annan hátt en byggðin í austanverðri borginni. Þessvegna væri ljóst að í vesturhlutanum væri ...
- miklu meira nábýli milli fólks og umferðar og við sjáum það bara að það er engin þörf á því að vera keyra hraðar og við fáum meira fyrir það að lækka þennan hraða en kostnaðurinn sem felst í því að þurfa að vera aðeins lengur. Þetta er spurning um nokkrar sekúndur að keyra lengur en við fáum miklu betri umhverfisgæði á móti. Við vorum ekki sammála um þetta en sem er svolítið sérstakt, sagði Sverrir.
Þáttarstjórnandi spurði Sverri þvínæst hvort hraðalækkunin umrædda myndi ekki lengja ferðatímann á þessum þjóðvegum sem Miklabraut, Hringbraut og Sæbraut eru, ekki síst um háannatíma umferðar. Svarið var eftirfarandi:
-En sko... Ef hámarkshraðinn á háannatíma...ef að sko hraðinn á umferðinni, raunhraðinn er ekki einu sinni 40, hvernig getur þetta þá haft þau áhrif? Það getur ekki haft þau áhrif. ...og hérna...og við eigum nefnilega til...Vegagerðin lét nefnilega gera rannsókn á sínum tíma á Miklubrautinni hvað það mundi þýða ef það yrði bara tekinn niður hraðinn þar...gert svona hermilíkan og hún sýndi það, þú veist.. það komast alveg jafn margir bíla á klukkustund í gegn en hver og einn bíll er auðvitað lengur, þú veist, það er bara lögmál eðlisfræðinnar, en það komast alveg jafn margir.
Þetta hefur engin áhrif á umferðarflæðið sem slíkt og getur jafnvel haft góð áhrif á umferðarflæðið af því að fólk er ekki að gera sér neinar væntingar um að geta bombað upp í sextíu með þeim afleiðingum að þú þurfir að bremsa, þú veist úr 60 svo...hérna fljótlega á eftir, við ljós og svona og hérna þannig að þetta geti bara búið til ...það væri auðveldara að búa til jafnt flæði...og hérna..þetta var eitthvað sem við lögðum mikinn trúnað á.
En það er svolítið áhugavert hinsvegar að Vegagerðin hefur ekkert gert með þessa rannsókn. Hún bara stakk henni ofan í skúffu og sagði -Við trúum ekki á þetta og það er svona líka dálítið af því við fengum nú Vegagerðina til okkar á fund og vorum að ræða þetta og þá fann maður það sko að þeir voru bara ekkert á sama stað. Það er hérna...þú veist...þeir hafa bara það eina markmið einhvernveginn að búa til góðar aðstæður fyrir umferð bíla, en þú veist, við sem erum í umhverfis- og skipulagsráði borgarinnar, við þurfum að hugsa um aðeins meira en bara svona ...borgargæðin, hvernig viljum við að borgin okkar sé, hvernig borg er gott að búa í, hvar eru góðar götur til að vera við hvort sem maður er í bíl, gangandi eða hjólandi, hvaða götur er gott að fara yfir þótt að maður sé ekki á bíl og hérna... þetta eru bara þættir sem við leggjum meiri vigt á og ég myndi gjarnan fá vegagerðina með mér í að kannski skoða það aðeins betur, hvernig við getum hannað fallegri götur í borginni.
Hér er hægt að hlusta á viðtalið, byrjar á 13.50 min